Atvinnusaga Búðareyrar sögð á Tækniminjasafni Austurlands

Ný sýning opnaði síðasta sumar í aðalsýningarrými Tækniminjasafns Austurlands, Vjelasmiðju Jóhanns Hanssonar en húsið stórskemmdist í aurskriðunum árið 2020. Þar er nú sögð atvinnusaga Búðareyrar á Seyðisfirði.

Sýningin kallast „Búðareyri – saga umbreytinga.“ Í henni er sögð saga Búðareyrarinnar síðustu 140-150 ár, svæðisins sem Vjelasmiðjan stendur á og hvernig hún hefur þróast samhliða uppbyggingu Seyðisfjarðar.

„Þetta er landræma sem afmarkast af Búðaránni að innanverðu og Fjarðarströndinni að utanverðu. Þetta er svæðið sem fór verst út úr skriðunni. Við vitum ekki hver framtíð þess verður. Búseta er hér bönnuð, óvíst er um atvinnustarfsemi og fyrirhugað er að flytja eldri hús í burtu.

Við hugsuðum fyrst um að segja frá stöðunni á eyrinni en svo kom þessi hugmynd um að fylgja eftir umbreytingunum. Hér hafa orðið miklar sviptingar í atvinnulífi, mannlífi og náttúru í gegnum tíðina. Sem aftur speglar stærri sögu á Íslandi og mögulega víðar.

Hér er vagga atvinnulífs á Seyðisfirði. Vjelasmiðjan var stöndugt og stórt fyrirtæki um árabil sem ekki var lengur rekstrargrundvöllur fyrir þegar skipasmíði fluttist úr landi. Hernámið breytti öllu hér þótt umsvif hersins væru bara í nokkur ár. Hér var braggabyggð og skotfærabirgi. Hermenn dvöldu í Angró og héldu bíósýningar.

Síldin hefur komið og farið nokkrum sinnum. Sjávarútvegurinn hefur breyst. Hér var annar hver maður með trillu, síðan kemur kvótakerfið með öllum sínum breytingum og nú hefur frystihúsinu verið lokað,“ segir Elfa Hlín Pétursdóttir, annar safnstjóranna.

Bannað að vera með safngripi vegna ofanflóðahættu


Margmiðlunartækni er mikið notuð við sýninguna því ekki má geyma eiginlega safngripi þar vegna ofanflóðahættu. „Því þurftum við að finna nýjar leiðir til að miðla sögunni en um það er líka gerð krafa. Það eru aðrar lausnir voru en fyrir 20 árum. Það er líka gaman að nota mismunandi tækni og aðferðir, svo sem myndlistina sem er stór hluti af Seyðisfirði.“

Eftir aurskriðurnar var Vjelasmiðjan talin ónýt og áformað að rífa hana. Frá því var horfið eftir að við nánari skoðun kom í ljós að hægt væri að gera við hana enda hefur húsið sögulegt og tilfinningalegt gildi fyrir bæði Seyðisfjörð og Ísland.

Elfa Hlín segir það mikilvægan áfanga að hafa náð að opna sýningu þar aftur. „Verkefnið sem tók við okkur fyrir rúmum þremur árum virtist við fyrstu sýn óyfirstíganlegt. Við vildum ekki gefast upp en þetta var eins og að borða fíl. Maður tekur einn bita í einu.“

Engurbygging Angró hafin


Tækniminjasafnið hefur einnig leyst aðstöðuleysi sitt með útisýningum. Sú fyrsta fjallaði um aurskriðurnar sjálfar en í sumar var opnuð ný sýning um atvinnuþátttöku kvenna á Seyðisfirði um aldamótin 1900.

„Það er mjög góð tilfinning að vera aftur komin með sýningu. Safnið verður að vera lifandi með sýningum, að þetta séum ekki bara við á skrifstofunni,“ segir Elfa Hlín.

Framundan er að byggja upp safnið á nýjum stað, en það hefur fengið lóð á Lónsleiru. Fyrsti hlutinn í því er endurbygging Angró, sem skemmdist í skriðunum og hrundi loks alveg í hvassviðri haustið 2022. Framkvæmdir við það eru hafnar.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar