Austfirðingar áberandi í tónleikaferð Krafts

Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein, stendur nú fyrir tónleikaferð hringinn í kringum landið. Komið verður í Neskaupstað annað kvöld. Austfirðingar eru áberandi í ýmsum stöðum í kringum tónleikaferðina.

„Jú, ég hef haldið tónleika alveg tvisvar í Neskaupstað,“ segir Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri Krafts og skipuleggjandi ferðarinnar. Austfirðingar þekkja hann sennilega best sem stofnanda þungarokkshátíðarinnar Eistnaflugs og fyrrverandi íþróttakennara í Nesskóla.

Ekki er annað að heyra á honum en hann hlakki til að koma austur og endurnýja enn á ný kynnin við Egilsbúð. „Þetta er algjörlega stórkostlegt hús, eins og gömlu félagsheimilin eru. Hljómburðurinn í þeim mörgum er meiriháttar. Á Norðfirði höfum við fólk sem þekkir húsið vel og hvernig eigi að láta tónlistina hljóma vel þar.“

Fyrstu tónleikarnir í hringferð Krafts verða á Höfn í Hornafirði í kvöld. Hljómsveit Stebba Jak, þar sem Egilsstaðabúinn Hafþór Valur Guðjónsson er meðal meðlima, fer hringinn en á nokkrum stöðum bætast fleiri atriði við.

Þannig verða Ína Berglind Guðmundsdóttir og Coney Island Babies með á tónleikunum í Egilsbúð annað kvöld. „Það er talað um grósku í tónlistinni eystra. Við fórum að skoða hvað væri að gerast fyrir austan núna. Ína Berglind er ung og efnilega og síðan erum við með heimafólk í Coney Island Babies líka.

Við vorum líka með það opið að Guðmundur R. Gíslason yrði með en hann er ekki heima. Í Neskaupstað hefðum við getað gert risapakka með heimafólki,“ segir Stefán.

Á morgun verða tónleikar á Akureyri. Þar kemur hljómsveitin Dopamine Machine fram en Ívar Andri Klausen, hennar forsprakki, er að austan. Á lokatónleikunum í Reykjavík á laugardag kemur Anya Shaddock frá Fáskrúðsfirði fram og hljómsveitin Langi Seli og skuggarnir en í henni er Jón skuggi frá Norðfirði.

Tónleikaferðin er hluti af árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki Krafts undir yfirskriftinni „Lífið er núna.“ Algengara er að tónlistarfólk ferðist um landið á sumrin en Kraftur ákvað að keyra af stað um hávetur.

„Við erum að vekja athygli á starfseminni. Fólk úti á landi greinist með krabbamein, rétt eins og það sem býr í Reykjavík. Vil vildum fara hringinn til að sýna okkur og sjá aðra auk þess að hitta fólkið okkar. Það er gaman að gera meira heldur en vera á samfélagsmiðlunum. Við erum alltaf með varning með okkur, eins og appelsínugulu Kraftshúfurnar sem eru merki átaksins, en við erum líka alltaf til í samtalið og erum til staðar ef einhver vilja tala.“

Ína Berglind Guðmundsdóttir kemur fram í tónleikunum í Egilsbúð á morgun, miðvikudag, klukkan 20:00

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.