Austfirðingur í keppninni um kokkur ársins
Kolbrún Hólm Þorleifsdóttir frá Egilsstöðum er meðal þeirra tíu sem í dag taka þátt í forkeppni um verðlaunin Kokkur ársins 2019.Fimm bestu kokkarnir úr forkeppninni í dag komast í úrslitin sem haldin verða í Hörpu laugardaginn 23. mars. Sigurvegarinn þar hlýtur svo þátttökurétt fyrir Íslands hönd í Nordic Chef of the Year 2020.
Aldrei hafa fleiri konur verið skráðar til keppni, en þær eru þrjár. Í tilkynningu frá keppnishöldurum segir að kappsmál sé að konur standi jafnhliða körlum innan kokkastéttarinnar, sem hafi verið mjög karllæg.
Kolbrún Hólm er fulltrúi Austurlands að þessu sinni. Hún starfar reyndar ekki á svæðinu þar sem hún vinnur hjá lúxushótelinu Deplum í Fljótum. Hún er jafnframt eini kokkurinn í forkeppninni sem starfar á veitingastað utan höfuðborgarsvæðisins.
Annar Héraðsbúi, Atli Þór Erlendsson, fór með sigur af hólmi í keppninni 2015.
Mynd: Ron Cogswell