![](/images/stories/news/umhverfi/skriduklaustur.jpg)
Austfirðir á topplista The Guardian
Austurland er á lista breska stórblaðsins The Guardian yfir áhugaverðustu áfangastaðina árið 2016. Í umsögn blaðsins er mælt sérstaklega með gönguferðum um svæðið.
Blaðið bendir á að kjörið sé að fara í bílferðir niður á firði, til dæmis til Seyðisfjarðar sem sé góð miðstöð fyrir gönguferðir að sumri til. Aðrir skemmtilegir göngukostir upp til fjalla séu á Snæfell eða um Hafrahvammagljúfur.
Fyrir þá sem hafa áhuga á menningu er mælt með heimsókn í Gunnarshús á Skriðuklaustri og þar skammt frá sé stutt í hestaleigu og umhverfi sem skarti gæsum, hreindýrum og heimskautaref.
Það er flug ferðaskrifstofunnar Discover the World í Egilsstaði sem kemur Austurlandi á listann. Í umsögn blaðsins segir meðal annars að Ísland verðskuldi vinsældir sínar en ferðirnar séu nær allar í gegnum Reykjavík. Nýja flugið gefi gestum kost á að fljúga beint í fjarlægari og ósnortnari hluta landsins.
Áður hefur Austurland verið á topplistum Daily Telegraph og London Evening Standard auk þess sem ítarleg grein er um svæðið í nýjasta hefti ferðaritsins Wanderlust.
The Guardian er leiðandi í heimi netmiðla og stendur að baki þeim fimmta vinsælasta í heiminum með yfir 40 milljónir lesenda á mánuði. Daglega er blaðið prentað í tæplega 200.000 eintökum. Það er afar þekkt fyrir rannsóknarblaðamennsku sínar og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir hana.
Fjöldi annarra framandi áfangastaða er á listanum svo sem Myanmar, vínhéröðin við Bordeaux í Frakklandi, Íran sem sé að opnast á ný með merkum menningarminjum, Stokkhólmur, Höfðaborg, Tenerife og Ríó með Ólympíuleikunum.