Orkumálinn 2024

Austurland á skjáum þýskra sjónvarpsáhorfenda

Tveir þættir sem alfarið fjalla um Austurland verða á dagskrá þýskra sjónvarpsstöðva næstu daga. Stjórnandi annars þáttanna segist hafa hrifist sérstaklega af frumkvöðlakraftinum sem búi í Austfirðingum.

Þættirnir eru báðir framleiddir af svæðisstöðvum sem eru hluti af ríkisstöðinni ARD. Þeir eiga sömuleiðis sameiginlegt að beina sjónum sínum að fólki sem lifir á eyjum.

Fyrri þátturinn verður sendur út í kvöld á vegum NDR sem nær yfir norðanvert Þýskaland eða svæði eins og Slésvík Holtsetaland, Neðra Saxland og Hamborg. Hann heitir MareTV og er 45 mínútur að lengd. Þar verður meðal annars sýnt frá göngum og réttum í Fljótsdal, Þórður Júlíusson á Skorrastað segir frá Litlu Moskvu, Karl Sveinsson á Borgarfirði ljóstrar upp leyndarmálum hákarlaverkunnar en á leiðinni þangað er áð í sjálfsalanum í einskismannslandi sem Kristinn Kristmundsson rekur.

Seinni þátturinn, Europas Einsame Inseln eða Einmana eyjur Evrópu, verður sendur út á laugardagskvöld á vegum MDR, sem nær yfir Þýringaland og Saxland. Sá þáttur er 25 mínútur en hann er fimmti og síðasti þátturinn í 29. þáttaröð sjónvarpsmannsins Thomas Junkers.

Hreifst af frumkvöðlakraftinum

Tveir aðrir þættir í röðinni eru um Ísland, annars vegar um Suðurland, hins vegar Norðurland, en Junker dvaldi í fimm vikur hérlendis síðsumars. Í þættinum um Austurland er líka rætt við Þórð á Skorrastað en meðal annarra viðmælenda má nefna Kristján Krossdal byssusmið á Héraði og Juliu Martin, stjórnanda Skaftfells á Seyðisfirði auk þess sem fræðst er um æðardúntekju í Loðmundarfirði.

„Það var frábært að vera á Austurlandi. Landslagið er stórkostlegt en ég hreifst mest af fólkinu og hvernig það lifir lífinu. En það koma upp vandræði þá er ekki einblínt á hvað er að heldur gengið í að leita lausna. Ég held að við getum lært af Austfirðingum hvernig við hugsum til framtíðar í stað þess að hjakka í vandamálum fortíðarinnar,“ segir Junker.

„Á svæðinu eru margir einstaklingar sem eru að reyna að skapa sér sinn eigin rekstur. Mér fannst til dæmis ótrúlegt að sjá heimsækja Kristján Krossdal. Hann er með skýrt markmið og veit hvað hann vill.

Sömuleiðis var áhugavert að fræðast um æðardúntekjuna og heyra hvernig dúninn er ekki lengur sendur til Japans til framhaldsvinnslu heldur reyna heimamenn nú að fullvinna hann sjálfir. Það hafði áhrif á mig.

Svo talaði ég líka við Ívar Ingimarsson sem á vitaskuld áhugaverðan feril að baki sem atvinnumaður í knattspyrnu en hann og fjölskylda hans hugsa steinasafn ömmu hans, Steina Petru. Sumum hefði kannski þótt eðlilegra að henda steinunum. Svo var það Seyðisfjörður með sinni fjölbreyttu menningu.

Í þættinum sem sendur var út í gærkvöldi fórum við meðal út á Langanes og hittum fólkið á Ytra-Lóni. Við spurðum hvers vegna það byggi svona afskekkt og svarið var að það væru í raun forréttindi að geta búið í náttúrunni.“

Tæplega 20% áhorf

Svæðisstöðvarnar framleiða efni sem sýnt er á dreifikerfi ríkisrásarinnar ARD sem þýðir að sjónvarpsáhorfendur um allt landið sjá þættina um Austurland. Ljóst er að búast má við að fjórðungurinn fái töluverða athygli í framhaldi af sýningu þáttanna en mælingar sýna að 18% sjónvarpsáhorfenda sáu þætti úr síðustu þáttaröð Junkers. Að lokinni frumsýningunni verða þættirnir aðgengilegir á vefsíðum stöðvanna auk þess sem þeir verða síðar endursýndir á öðrum svæðisstöðvum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.