![](/images/stories/news/2025/MEgettubetur25.jpg)
Báðir framhaldsskólar Austurlands úr leik í Gettu betur
Lið Menntaskólans á Egilsstöðum (ME) komst ekki lengra í spurningakeppninni Gettu betur en í átta liða úrslit en þar lá liðið fyrir Fjölbrautarskólanum í Ármúla (FÁ) í beinni útsendingu á RÚV á föstudagskvöld.
Sigur FÁ var nokkuð afgerandi með 30 stigum gegn 18 stigum Austfirðinganna en í fyrri umferðum höfðu menntskælingarnir betur gegn bæði Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra og Verkmenntaskóla Akureyrar.
Þar með eru báðir framhaldsskólar fjórðungsins úr leik í þessari sívinsælu keppni þetta árið. Hinn skólinn, Verkmenntaskóli Austurlands, datt út strax í fyrstu umferð keppninnar þegar liðið tapaði gegn Verkmenntaskóla Akureyrar.