Bækurnar af svæðinu vinsælastar

Héraðsmannasögur – gamansögur af Héraði er mest selda bókin í Nettó Egilsstöðum fyrir þessi jól. Salan þar er nokkuð frábrugðin öðrum verslunum keðjunnar þar sem bækur sem tengjast svæðinu og sveitinni njóta mestrar hylli.

„Við bjuggumst við að metsölulistinn okkar yrði eins og í öðrum verslunum Nettó eða helstu sölulistum en hann er verulega frábrugðin. Það eru bækur úr heimabyggð sem eru þar efstar.

Austfirðingar hafa verið öflugir í útgáfunni og við fögnum því. Það er greinilegt að fólk sækir í þær bækur,“ segir Bjarki Sæþórsson, verslunarstjóri.

Meðal tíu mest seldu bókanna eru Héraðsmannasögur, Fljótsdæla, Heiða fjallabóndi og Forystufé en inn á milli eru þekktir höfundar eins og Arnaldur Indriðason og Yrsa Sigurðardóttir.

Bjarki er afar ánægður með bóksöluna í ár. „Það er mikil aukning milli ára, sérstaklega hjá okkur. Mér finnst það merkilegt miðað við tæknivæðinguna því ég hefði haldið að hún drægi úr sölunni.“

Hann hefur hins vegar ekki haft tíma til að lesa austfirsku bækurnar í jólaösinni. „Ekki enn en ég útiloka ekki að líta eitthvað í þær þannig maður komi sér meira inn í samfélagið.“

Mest seldu bækurnar í Nettó Egilsstöðum:

1. Héraðsmannasögur eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson og Jón Kristjánsson
2. Heiða - fjalldalabóndinn eftir Steinunin Sigurðardóttur
3. Fljótsdæla eftir Helga Hallgrímsson
4. Petsamo eftir Arnald Indriðason
5. Útkall - Kraftaverk undir jökli eftir Óttar Sveinsson
6. Aflausn eftir Yrsu Sigurðardóttur
7. Laddi: Þróunarsaga mannsins eftir Gísla Rúnar Jónsson
8. Þín eigin hrollvekja eftir Ævar vísindamann
9. Pabbi prófessor eftir Gunnar Helgason
10. Forystufé eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar