Bætti umhverfið í hljóðverinu með ull

Jens Einarsson á Egilsstöðum hefur nýtt íslenska ull til að búa til fleka sem draga í sig hljóð. Þeir hafa meðal annars nýst til að bæta hljóð í hljóðverum og er Jens afar ánægður með afraksturinn.

„Ég hef í mörg ár verið með hljóðver heima hjá mér og fram til þessa búið mér til hljóðdempunar fleka úr steinull, sem er algengasta efnið í bransanum í dag. Ég er hins vegar með ofnæmi fyrir stein- og glerull og einhvern tíma, meðan á námskeiði sem ég sótti stóð, var ég heima hjá mér að brasa við steinullarfleka.

Mig klæjaði, ég hóstaði og snýtti mér. Þá fékk ég hugmyndina um hvort hægt væri að gera slíka fleka úr ull og nýta það í námskeiðið,“ segir Jens um tilurð hugmyndarinnar í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Jens var þá meðal þátttakenda í námskeiði sem kallaðist Beint frá býli. Hann fékk strax stuðning, Bryndís Ford í Hallormsstaðarskóla hvatti hann áfram, Ístex lagði til ull og Skógræktin á Hallormsstað lerki. Þá fékk Jens vinnuaðstöðu á Miðhúsum þar sem Hlynur Halldórsson smíðaði hljóðgildrurnar með honum.

Jens útskýrir að flekarnir séu tvenns konar. Annars vegar ferkantaðir, 120x60 sm. að flatarmáli og 7-10 sm. þykkir. Þeir eru fylltir með ull og framan á þeim er ullarvoð, sem Jens segir góða til að dempa hljóð og að hún sé stundum notuð ein og sér. Hins vegar voru smíðaðir þríhyrningar sem falla út í horn, kallaðir bassagildrur og eru til að grípa bassatíðnir. Þeir eru stærri og þurfa meiri ull.

Jens kveðst ekki hafa farið út í fjöldaframleiðslu á hljóðdempunar flekunum, til þess hefði þurft stuðning öflugra bakhjarla við markaðssetningu. Flekarnir verði alltaf dýrari en flekar úr svampefni, sem Jens segir þó hvorki virka eða endast sérstaklega vel en þess vegna þurfi að kynna kosti vörunnar enn frekar.

Jens er afar ánægður með þá fleka sem hann hefur heima hjá sér. „Ullin er þvegin og hreinsuð, þess vegna er engin lykt eða óþrif frá henni. Hljóðgildrur úr ull eru því húsvænar og að mínu viti miklu skilvirkari en úr steinull, þótt rannsóknir sýni þær sem sambærilegar.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.