Búast við handboltamóttökum
Útsvarslið Fljótsdalshéraðs, sem tapaði í úrslitum fyrir liði Kópavogs, reiknar með höfðinglegum móttökum þegar það snýr aftur til Egilsstaða.
„Við höfum jafnað árangur íslenska landsliðsins í handbolta með að komast í úrslit,“ sagði Stefán Bogi Sveinsson, einn liðsmanna, í samtali við Austurgluggann í gær. „Við reiknum með mannfjölda á flugvellinum og ferð á heyvagni í gegnum Egilsstaði.“
Á þessu eru samt ýmsir vankantar. Stefán Bogi fór fyrstur austur og Urður Snædal fer ekki austur þar sem hún býr á Akureyri. Austurglugganum er ekki kunnugt um ferðaáætlun Þorsteins Bergssonar en reikna má með að hún endi á Unaósi.
Í kvöld keppir ME við MR í Gettu betur. Útsendingin hefst klukkan 20:05. Reikna má með að hátt í eitt hundrað menntskælingar hafi fylgt liðinu suður.