Batt inn bækur um íbúðarhús á Reyðarfirði
Vigfús Ólafsson frá Reyðarfirði færði bókasafni staðarins nýverið höfðinglega gjöf, innbundnar bækur með upplýsingum um tæplega 50 eldri íbúðarhús á staðnum.Um var að ræða 45 bækur sem Vigfús hefur bundið inn en hann hefur undanfarin ár fengist við bókband í frístundum sínum.
Í hverri bók eru upplýsingar um eitt af eldri íbúðarhúsum Reyðarfjarðar, nema að í einni bókinni eru upplýsingar um þrjú hús sem eru horfin.
Að auki er 21 síða í hverri bók þar sem hægt er að setja inn upplýsingar um viðkomandi hús, hvort heldur sem er myndir eða ritar mál. Hægt er að koma við á bókasafninu á opnunartíma þess með upplýsingar.
Guðrún Rúnarsdóttir bókavörður á Reyðarfirði og Vigfús með bækur. Mynd: Ásgeir Metúsalemsson