Besti leikur Fjarðabyggðar

Knattspyrnufélag Fjaraðbyggðar lék sinn besta leik í sumar þegar liðið tapaði 0-2 fyrir bikarmeisturum FH í 32ja liða úrslitum keppninnar á Eskifjarðarvelli í kvöld. Mörk FH komu í upphafi seinni hálfleiks.

 

Image Þegar mesta stressið rann af leikmönnum Fjarðabyggðar tóku þeir völdin á vellinum. FH-ingum gekk illa að ráða við hraða Guðmundar Atla Steinþórssonar, Stefáns Þórs Eysteinssonar, Sveinbjarnar Jónassonar og Inga Þórs Þorsteinssonar sem skilaði sér í nokkrum hálffærum. Það besta féll fyrir Guðmund Atla sem komst einn á móti markverði en skaut í stöng.

 

Eftir að hafa sloppið fyrir horn í seinni hálfleik tók FH öll völd á vellinum í seinni hálfleik. Þeir sóttu stíft að marki Fjarðabyggðar og það skilaði marki á 55. mínútu þegar Jónas Grani Garðarsson stýrði fyrirgjöf frá vinstri í netið. Matthías Guðmundsson skoraði annað markið tíu sekúndum síðar. Tryggvi Guðmundsson, sem var nýkominn inn á, slapp í gegnum rangstöðuvörn Fjarðabyggðar og sendi boltann út í teiginn á Matthías sem afgreiddi hann í netið.

FH réði áfram gangi leiksins átti nokkrar ágætis fyrirgjafir en markvörður Fjarðabyggðar, Srdjan Rajkovic, var vel á verði.

 

ImageMagni Fannberg, þjálfari Fjarðabyggðar, var ánægður með spil liðsins. „Mér fannst við mjög góðir, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við pressuðum FH vörnina og létum boltann ganga. Við vorum óheppnir að skora ekki tvö mörk. Við áttum skot í stöng og tókum ranga ákvörðun í öðru dauðafæri. En þetta er munurinn á liðunum, bestu liðin nýta svona tækifæri.“

En leikurinn breyttist. „Mörk breyta leikjum og þau gerðu það svo sannarlega í dag. Eftir að hafa verið á rassgatinu í fyrri hálfleik skora FH-ingar mark og eflast við það.“

 

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, las yfir sínu liði eftir afleitan fyrri hálfleik. „Þegar menn spila í 32ja liða úrslitum gegn liði eins og Fjarðabyggð verður hugarfarið að vera í lagi. Við vorum værukærir í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik vorum við töluvert betri og það dugði okkur. Fjarðabyggð kom okkur á óvart. Liðið spilaði mun meiri sóknarleik en við áttum von á.“

Tilkoma Tryggva Guðmundssonar var meðal þess sem efldi FH liðið. „Tryggvi skilar alltaf sínu. Mér fannst tilvalið að setja hann inn á þessum tímapunkti enda þurfti hann bara smá stund til að leggja upp mark.“

Fjarðabyggð tekur á móti Stjörnunni í 1. deild á sunnudag klukkan 14:00

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar