Bjartsýn á að komast áfram í Evrópusöngvakeppninni
Móðir króatíska keppandans í Evrópusöngvakeppninni er bjartsýn á velgengi sonar síns þegar hann stígur á svið í seinni undanúrslitum keppninnar í kvöld. Sá er fulltrúi Austurlands í keppninni í ár því móðir hans býr í fjórðungnum.„Roko er tilbúinn – og draumaliðið líka. Hann mun gera sitt besta og við vonumst eftir að hann komist áfram,“ segir Marija Sartlija-Blazevic.
Marija starfar dags daglega sem matreiðslumaður hjá 701 Hotels, sem reka meðal annars Dinerinn og Salt á Egilsstöðum. Hún lagði land undir fót í vikunni og kom til Tel Aviv til Ísrael í gær til að vera viðstödd keppnina í kvöld.
Hún segir stemminguna þar vera frábæra. „Það er áhugavert að vera hér. Fulltrúar allra landa eru svo kurteisir hver við annan. Það er engin keppni milli þeirra. Stemmingin í græna herberginu er líka frábær.“
Roko Blazevic, sonur Mariju, verður tíundi á sviðið í kvöld af átján atriðum. Lagið sem hann syngur heitir „The Dream.“