Björg Björns: Var mjög áfram um að Steini héldi áfram

Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð mætast í fyrstu Útsvarsviðureign tímabilsins á RÚV í kvöld. Liðin áttust við í undanúrslitum í vor þar sem Fljótsdalshérað hafði betur og vann keppnina. Liðsmaður Fljótsdalshéraðs reiknar með að lið Fjarðabyggðar leiti hefnda nú.


„Við eigum von á að þau mæti vígreif til leiks og vilji jafna um okkur,“ segir Björg Björnsdóttir sem er áfram í Héraðsliðinu líkt og Hrólfur Eyjólfsson.

Þorsteinn Bergsson verður ekki með nú en í hans stað Stefán Bogi Sveinsson sem hefur ríka reynslu úr keppninni. „Ég var mjög áfram um að Steini héldi áfram en hann ætlar að skipta sér af pólitík svo það gekk ekki.

Það kemur maður í manns stað og Stefán Bogi er ákaflega öflugur. Við Hrólfur getum huggað okkur við að ósigur kemur verr við hann sem kjörinn bæjarfulltrúa.“

Þegar Austurfrétt náði tali af Björgu var hún nýlent í höfuðborginni en þangað varð hún samferða Davíð Þór Jónssyni og Hákoni Ásgrímssyni, liðsmönnum Fjarðabyggðar.

„Við sátum saman á flugvellinum og í vélinni suður og töluðum saman í mesta bróðerni. Við ræddum aðallega um að í vor var ýjað að því að brugðið yrði á leik með einhverjar nýjungar þar sem þetta er tíunda tímabilið og við óttumst að það komi niður á okkur sem verðum fyrst,“ sagði Björg.

Keppendum hefur hins vegar ekki verið tilkynnt um neinar nýjungar og spurningahöfundarnir eru þeir sömu og í fyrra.

Héraðsliðið hefur lítinn tíma fengið til undirbúnings þar sem keppnin var bara staðfest á þriðjudag. Björg segir það litlu skipta þótt liðið mæti til leiks sem ríkjandi meistarar og nágrannarnir séu andstæðingarnir.

„Mér finnst verst að við þurfum að mætast í fyrstu umferð því ég hefði viljað sjá bæði liðin fara langt. Það er samt ekki útilokað því við unnum í fyrra þótt við töpuðum fyrstu keppninni.

Við mætum til leiks í kvöld með svipuðu hugarfari og fyrir fyrstu keppni í fyrra, að hafa gaman af og gera okkar besta. Meira er ekki hægt að gera.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar