Skip to main content

Bjuggu til jólakort, seldu og gáfu afraksturinn í jólasjóð

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. des 2022 10:29Uppfært 08. des 2022 18:11

Óvænta gesti bar að garði í Kirkjusel í Fellabæ í gær þegar þangað komu nemendur í leikskólanum Hádegishöfða ásamt kennurum sínum og það færandi hendi.

Hafa börnin í leikskólanum meðal annars dundað sér við það undanfarið að útbúa sín eigin jólakort og selt foreldrum sínum. Það var afrakstur þeirrar vinnu sem börnin höfðu með sér í Kirkjusel og gáfu alla fjárhæðina í jólasjóð Múlaþings.

Sá jólasjóður er samstarfsverkefni Rauða krossins, Þjóðkirkjunnar, AFLs starfsgreinafélags, Lionsklúbbanna á Héraði og á Seyðisfirði auk Múlaþings sjálfs en honum er ætlað að styrkja fjölskyldur og einstaklinga í Múlaþingi og á Vopnafirði sem búa við þröngan kost.

Afrakstur af vinnu barnanna í fallega skreyttum krukkum. Allt fer það til góðs málefnis í tveimur sveitarfélögum. Mynd Kristín Þórunn Tómasdóttir