Skip to main content

Bókasöfn verða þjónustugáttir íbúa

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. nóv 2009 21:59Uppfært 08. jan 2016 19:20

Frá næstu áramótum verða almenningsbókasöfnin í þéttbýliskjörnum Fjarðabyggðar þjónustugáttir fyrir íbúa á hverjum stað.  Í bókasöfnum á Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, Eskifirði og Norðfirði liggja frammi eyðublöð og á opnunartíma safnanna er tekið við umsóknum um þjónustu sveitarfélagsins.  Jafnframt verður þar aðgangur að tölvu og aðstoð og ráðgjöf um hvernig nálgast má upplýsingar um starfsemi sveitarfélagsins á heimasíðunni. 

fjarabygg_vefur.jpg

Í tilkynningu frá Fjarðabyggð segir að endurskoðun á þjónustu sveitarfélagsins beinist annars vegar að því að nýta aðstöðu í bókasöfnum Fjarðabyggðar til að jafnræðis sé gætt í þéttbýliskjörnunum og hins vegar að því að auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri sveitarfélagsins.  Heimasíðan er í endurskoðun til að einfalda aðgang að þjónustuupplýsingum og unnið er að skilgreiningum á þjónustunni m.a. til að símsvörun sveitarfélagsins geti greitt úr sem flestum fyrirspurnum og erindum.

 

Samhliða verður skrifstofu bæjarins í Neskaupstað lokað og starfsemi bæjarskrifstofunnar sameinuð á Reyðarfirði.  Bæjarfulltrúar kynntu ákvörðun þessa efnis á fundum sem haldnir voru með starfsmönnum bæjarskrifstofanna 18.nóvember. Við upphaf kjörtímabils lá fyrir að stjórnsýslan yrði sameinuð á einum stað að sex árum liðnum.  Ákvörðuninni er hrundið í framkvæmd nú vegna þess að leki og önnur vandamál hafa verið viðvarandi á skrifstofunni.  Leigusali hefur sýnt ítrekuðum kröfum sveitarfélagsins um úrbætur og eðlilegt viðhald tómlæti og vinnuaðstæður eru ekki viðunandi.  Sveitarfélagið var því knúið til að rifta samningi.  Ber lokun skrifstofu í Neskaupstað því bráðar að en ráð hafði verið gert fyrir.