Blöðrur og blóð nánast alla leið en endaði samt önnur
Austfirðingurinn Elísa Kristinsdóttir gerði sér lítið fyrir um liðna helgi og endaði önnur í einhverri erfiðustu langhlaupskeppni sem haldin er hérlendis eftir að hafa hlaupið 37 hringi sem hver um sig var 6,7 kílómetrar.
Hlaupið atarna er gjarnan kallað Bakgarðshlaupið eða Náttúruhlaupið en slík eru haldin tvívegis á ári hverju á höfuðborgarsvæðinu. Fyrra hlaupið í aprílmánuði í Öskjuhlíðinni og hið síðara í náttúruparadísinni Heiðmörk í september. Slík hlaup ganga út á að hlauparar fara 6,7 kílómetra leið á hverri klukkustund linnulaust þangað til aðeins einn stendur eftir. Takist að ljúka hverjum hring á innan við klukkustund er hægt að nota tímann sem eftir er til hvíldar og eða endurnæringar. Að tíu hringjum loknum er hlaupurum heimilt að kalla til aðstoðarmann sem í tilfelli Elísa var systir hennar og frænka.
Elísa, sem er frá Neskaupstað en verið búsett í nokkur ár á höfuðborgarsvæðinu, segist stolt og ánægð af árangrinum en hann sé þó ekki alveg tilviljun ein saman.
„Ég hef svo ótrúlega gaman af þessu en það kannski erfitt að lýsa því fyrir öðrum með orðum. Þetta gefur mér ótrúlega mikið að hlaupa svona í fallegu umhverfi með náttúru allt í kring. Í svona hlaupum er líka afar góður andi milli keppenda enda er enginn að taka sprettinn mjög lengi heldur allir að fara svona á sínum hraða þannig að það næst jafnvel að spjalla meðan hlaupið er. Ég komin með ákveðna reynslu því ég hljóp 50 kílómetra í sama hlaupi fyrir ári síðan. Þá tók ég þátt til svona að sjá hvernig þetta væri og var ekki með neinn aðstoðarmann. Svo fór ég aftur í vor þegar hlaupið var í Öskjuhlíð þó ég hefði á þeim tíma verið í lélegri þjálfun en hljóp engu að síður 120 kílómetra. Þá hætti ég þegar ég fór að finna fyrir í hnjánum en ákvað þá að taka þátt næst og þjálfa mig vel fyrir. Það skilaði mér öðru sætinu að þessu sinni.“
Slíkur árangur ekki gefinn og sjálf segir Elísa að hún hafi fundið fyrir óvenju mikilli þreytu strax á öðrum hring sem henni tókst að vinna bug á með aðstoð systur sinnar.
„Hún bara bannaði mér að hugsa um þreytuna og næsta hring á eftir náði ég á góðum tíma og gat hvílt mig í korter áður en ég fór aftur af stað. Ég gat nýtt tíma til að sofna og sofnaði svo djúpt að ég fór að dreyma. Svo var annar hringur þar sem allar blöðrurnar á fótunum fóru að springa og segja til sín sem er æði vont en þar aftur kom systir mín mér til hjálpar og beið mín með allar græjur til að hreinsa og laga áður en ég fór aftur af stað. Hún á stóran hluta í þessum árangri mínum.“
Elísa var á leið heim í Neskaupstað þegar Austurfrétt náði tali af henni og þar ætlaði hún eingöngu að nýta helgina til að hvíla sig í faðmi fjölskyldu og vina enda mikil þreyta í sinni eftir hlaupið þó skrokkurinn sé merkilega góður miðað við allt og allt að hennar sögn.
„Það er fátt betra til endurnýjunar en að komast heim í nokkra daga og það ætla ég að gera.“
Elísa á einum hringnum um helgina. Fleiri hundruð manns tóku þátt í Bakgarðshlaupinu að þessu sinni. Mynd aðsend