"Bóndinn var hálft sumar að taka geiturnar í sátt"
Frá árinu 2020 hafa hjónin Guðni Þórðarson og Þorbjörg Ásbjörnsdóttir (Obba) á Lynghól í Skriðdal framleitt vörur úr geitamjólk. Þau segja viðtökurnar hafa verið framúrskarandi.Hvorki Guðni né Obba eru Austfirðingar í grunninn. Hann rekur sínar ættir til Kolbeinsstaðahrepps á Snæfellsnesinu á meðan hún er Húnvetningur. Þeirra leiðir lágu saman á Hvanneyri þar sem þau voru í búfræðinámi en fluttu að því loknu á jörð sem Guðni áti, Syðstu-Garða í Kolbeinsstaðahreppi.
Þar var þá enginn búskapur og bæði störfuðu þau um hríð utan heimilisins við hin ýmsu störf, auk þess sem Þorbjörg bætti við menntun sína og lauk námi í þroskaþjálfun. Draumurinn var engu að síður að stunda búskap með einhverjum hætti.
Jörðin hentaði illa fyrir sauðfé og kálfabúskapur gekk illa en þau komu á fót tamningarmiðstöð árið 1995, samhliða því að taka börn og ungmenni í fóstur. Það hafa þau alla tíð gert og eignast alls um 50 fósturbörn á 30 árum og eru í góðu sambandi við mörg þeirra enn.
„Við eigum eina dóttur saman en ég lít á fósturbörnin mín frá þessum skemmtilega tíma sem mín eigin börn að stórum hluta. Sum þeirra koma reglulega í heimsókn til okkar hingað á Lynghól og það getur sannarlega verið líf í tuskunum þegar mörg þeirra sækja okkur heim í einu,“ segir Obba.
Haldið austur á Lynghól
Það er svo árið 1999 sem þau lesa í Bændablaðinu um jörðin Lynghóll í Skriðdal sé til sölu. Skiptir engum togum að nokkrum dögum síðar eru þau komin hinu megin á landið að skoða eignina sem þar um ræddi.
Jörðin Lynghóll samanstendur af nokkuð ferkantaðri landræmu á milli bæjanna Mýra og Geirólfsstaða. Bærinn sjálfur stendur í 180 metra hæð yfir sjávarmáli. Þau komu í mars þegar allt var á kafi í snjó en létu samt vaða og tóku við þá 300 kinda búi rétt fyrir sauðburð. „Hér höfum við verið síðan, alltaf liðið vel og aldrei horft neitt til baka.“
Engan þekktu þau náið við komuna, hvorki í Skriðdal né á Austurlandi, en áttu þó tengsl við nokkra einstaklinga sem þau þekktu meðal annars frá námi sínu á Hvanneyri. Ókunnleikinn kom ekki að sök því móttökurnar í Skriðdal voru yfirmáta góðar og fjölmargir buðu aðstoð sína og hjálp hvenær sem þörf væri á því.
Geiturnar bætast við
Fyrir um tíu árum datt Obbu og dótttur þeirra, Láru, í hug að bæta við geitum við dýrahjörðina. Guðni var ekki jafn sannfærður.
„Ætli það hafi ekki tekið bóndann hálft sumar eða svo að taka geiturnar í fulla sátt,“ segir Obba hlæjandi. „Þetta uppátæki var þó fyrst og fremst til að hafa þær sem nokkurs konar gæludýr því okkur fannst geitur skemmtilegar.
Í upphafi fengum við því þrjár huðnur og einn hafur og eins og okkur grunaði reyndist afar gaman að hafa þær. Þetta eru afar skemmtileg dýr og afar ólík kindum að mjög mörgu leyti. Þær hafa hver sinn eigin persónuleika og fara allar meira og minna sínar eigin leiðir.
Við höfum þó komist að því að það má stjórna þeim svona nokkurn veginn með ákveðnum leiðum eins og að skapa ákveðnar venjur til dæmis með ákveðnum tímasetningum. Þær fara oftar en ekki að fylgja þeim eftir dálítinn tíma.“
Geitagott tvöfaldað framleiðsluna á hverju ári
Geiturnar höfðu þó ekki verið lengi á bænum heimilisfólki til yndisauka þegar þau hjón fóru að íhuga hvort ekki mætti nýta mjólk þeirra með einhverjum hætti. Úr varð að Þorbjörg hófst handa að viða að sér þekkingu og leitaði þar fanga víða. Haustið 2020 fengust síðan tilskilin leyfi og Obba byrjaði að prófa sig áfram í eldhúsinu í félagsheimilinu á Arnhólsstöðum, Þegar umfangið jókst komu þau upp aðstöðu á Lynghól með að breyta vörugámi.
Þau framleiða undir merkinu „Geitagott“ og bjóða upp á nokkrar tegundir salatosta, skyr, jógurt, mysusíróp og bragðsterkan ost sem kallast Fjalli. Inn á milli falla til sérostar. Auk einstaklinga selja þau á veitingastaði á Austurlandi, Akureyri og í Reykjavík.
„Það verður að segjast eins og er að þetta hefur undið merkilega hratt upp á sig,“ segir Guðni og til marks um það hefur bókstaflega þurft að tvöfalda framleiðslu Geitagotts hvert ár frá stofnun, til þess eins að anna eftirspurn.