Borgarfjörður eystri sýknaður af ábyrgð fyrir Álfastein

Borgarfjarðarhreppur hefur verið sýknaður af Héraðsdómi Reykjavíkur vegna kröfu Kaupþings varðandi ábyrgð sem hreppurinn gekkst í árið 1997 fyrir Álfastein. Álfasteinn varð gjaldþrota árið 2003. Hafa málaferli vegna ábyrgðarinnar verið í gangi frá árinu 2006 og komust til kasta Hæstaréttar.

borgarfjordur_eystri.jpg

Upphaflega var ábyrgðin vegna 2 milljóna króna láns sem Álfasteinn fékk hjá Búnaðarbankanum en málið var höfðað til að innheimta 507 þúsund króna skuld auk dráttarvaxta.

Í niðurstöðu dómsins segir að í samþykkt sveitarstjórnar Borgarfjarðarhrepps eystra 17. mars 1997 hafi verið talið að trygging, sem boðin var fram af Álfasteini væri fullnægjandi. Í tryggingarbréfi, sem gefið var út af fyrirtækinu daginn eftir, hafi ekki verið notað orðið veð, en þriðjungur af framleiðsluvörubirgðum settur til tryggingar ábyrgðinni.  Með þessu bréfi hafi ekki getað stofnast gilt veð samkvæmt þágildandi veðlögum.  Samþykkt hreppsnefndar um að meta þetta sem fullnægjandi tryggingu hafi því augljóslega verið marklaus og ábyrgðin sé því ógild.

DÓMUR HÉRAÐSDÓMS REYKJAVÍKUR: 

Mál þetta höfðaði Kaupþing banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík, með stefnu birtri 19. maí 2008 á hendur Borgarfjarðarhreppi eystri.  Með yfirlýsingu fyrir dóminum 5. desember sl. tók Nýi Kaupþing banki hf. við sóknaraðild að málinu.  Málið var dómtekið þann dag. 

            Stefnandi krefst greiðslu á 507.005 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2003 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins. 

            Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar. 

            Einkahlutafélagið Álfasteinn gaf út skuldabréf að fjárhæð 2.000.000 króna til Búnaðarbanka Íslands hf. þann 19. mars 1997.  Stefndi tókst á hendur ábyrgð á skuld þessari í samræmi við samþykkt er gerð var á fundi sveitarstjórnar 17. mars 1997.  Sveitarstjóri áritaði skuldabréfið, en strikað hefur verið yfir orðshlutann sjálfskuldar- í texta bréfsins á tveimur stöðum, auk þess sem strikuð hefur verið út setningin ábyrgð in solidum, sem höfð er innan sviga. 

            Í málinu liggur frammi yfirlýsing er sveitarstjóri gaf út þann 18. mars 1997.  Segir þar:  Skv. fundarsamþykkt hreppsnefndar Borgarfjarðarhrepps 17. mars 1997 leggur Álfasteinn ehf., Borgarfirði eystra, fram fullnægjandi tryggingar vegna einfaldrar ábyrgðar, sem hreppurinn mun taka á 2ja milljóna króna láni, Álfasteinn ehf. hyggst taka hjá Búnaðarbanka Íslands.  Þá liggur frammi tryggingarbréf er Álfasteinn gaf út þennan sama dag til stefnda.  Þar er þriðjungur af framleiðsluvörubirgðum fyrirtækisins settur til tryggingar ábyrgðinni.  Síðan segir orðrétt:  „Komi til fjárútláta Borgarfjarðarhrepps vegna ábyrgðar hreppsins á láni Búnaðarbankans má hreppurinn láta skipta til sín þriðjungi framleiðsluvörubirgða Álfasteins – þó að hámarki því sem nægir til að gera hreppinn skaðlausan af lánsábyrgðinni...“

            Vanskil urðu á greiðslu skuldabréfsins.  Skilmálum þess var breytt með yfirlýsingu 2. maí 2000.  Samþykkti stefndi þá skilmálabreytingu með því að sveitarstjóri áritaði yfirlýsinguna. 

            Enn urðu vanskil á greiðslu og kveðst stefnandi hafa gjaldfellt bréfið þann 1. nóvember 2003 og reiknar stefnukröfur sínar miðað við það. 

            Bú Álfasteins ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 26. nóvember 2003.  Ekkert fékkst greitt upp í kröfu stefnanda úr búinu. 

            Búnaðarbanki Íslands, upphaflegur kröfuhafi, sameinaðist stefnanda á árinu 2003.  Nýi Kaupþing banki hf., var stofnaður síðari hluta síðasta árs og tók við aðild að máli þessu eins og áður segir. 

            Mál var höfðað á hendur stefnda til heimtu skuldarinnar í febrúar 2006.  Með dómi Hæstaréttar 18. október 2007 var málinu vísað frá héraðsdómi.  Stefnandi höfðaði mál á ný 12. desember 2007.  Það mál var fellt niður 13. maí 2008. 

            Málsástæður og lagarök stefnanda 

            Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á áðurnefndu skuldabréfi sem gefið var út 19. mars 1997.  Skilmálum þess hafi verið breytt 2. maí 2000.  Stefndi hafi með áritun á bréfið tekið á sig einfalda ábyrgð á efndum þess.  Skilmálabreytingin hafi ekki falið í sér meiri skuldbindingar er fólust í skuldabréfinu sjálfu.  Því eigi ekki að beita hér 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sem í gildi voru er skilmálunum var breytt. 

            Stefnandi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnda að skilmálabreytingin feli í sér nýjan lánssamning.  Verði samt litið svo á telur stefnandi að stefndi hafi ritað undir skilmálabreytinguna til að tryggja eigin hagsmuni, þ.e. til þess að hindra að skuldin félli á hann á grundvelli ábyrgðarinnar. 

            Stefnandi telur að greiðsluskylda stefnda hafi orðið virk 26. nóvember, en þann dag hafi bú Álfasteins ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta.  Skuldir samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingum fyrnist á fjórum árum samkvæmt 4. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.  Fyrningarfrestur reiknist frá gjalddaga samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna. 

            Stefnufjárhæð samanstendur af höfuðstól bréfsins, 448.620 krónum, afborgun og vöxtum á gjalddaga 1. nóvember 2003, 49.085 krónum, og vanskilagjaldi, 9.300 krónum. 

            Stefnandi vísar til almennra reglna kröfuréttar og meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi loforða.  Þá vísar hann til vanendaákvæða í skuldabréfinu.  Hann kveðst reka málið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991. 

            Málsástæður og lagarök stefnda

            Stefndi telur að ábyrgðaryfirlýsing sú er hann gaf 19. mars 1997 hafi verið ógild.  Hann hafi áritað skuldabréfið í reit er beri fyrirsögnina Samþykkir ofanskráðu sem sjálfskuldarábyrgðaraðilar.  Honum hafi verið óheimilt að gangast undir slíka ábyrgð. 

            Þá telur stefndi að ábyrgðin sé ógild vegna þess að Álfasteinn, útgefandi skuldabréfsins hafi ekki boðið fram gildar og fullnægjandi tryggingar og því hafi sér verið óheimilt að gangast undir einfalda ábyrgð.  Þágildandi veðlög nr. 18/1887 hafi bannað veðsetningu vörubirgða.  Stefndi telur að sér hafi ekki verið unnt að meta sem gilda tryggingu sem hafi verið ógild að lögum.  Þetta hafi stefnanda mátt vera ljóst. 

            Þá telur stefndi að samþykki sitt á skilmálabreytingu skuldabréfsins, dags. 2. maí 2000, sé ógilt.  Þá hafi verið í gildi 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Samkvæmt lagaákvæði þessu hafi sveitarfélagi verið óheimilt að gangast í ábyrgð fyrir skuldum annarra en stofnana sveitarfélagsins.  Í skilmálabreytingunni hafi m.a. falist lenging lánstímans.  Með henni hafi verið gerður nýr lánssamningur og hafi sér verið óheimilt að gangast undir ábyrgð á hinum nýja samningi. 

            Verði talið að hann beri ábyrgð samkvæmt skuldabréfinu frá 1997 byggir stefndi á því að ábyrgðin takmarkist við skilmála samkvæmt því bréfi.  Þá kveðst hann leggja áherslu á að ábyrgðin samkvæmt skuldabréfinu geti ekki raknað við þó að samþykki fyrir skilmálabreytingunni sé ógilt.  Fyrri samningur um greiðsluskilmála hafi verið felldur úr gildi með skilmálabreytingunni.  Krafa stefnanda byggi alfarið á skilmálabreytingunni og verði því ekki hægt að dæma málið á grundvelli skuldabréfsins. 

            Verði talið unnt að dæma um ábyrgð samkvæmt skuldabréfinu, telur stefndi að krafa á hendur sér sé fyrnd.  Þá hafi ábyrgðin fallið niður að liðnum fimm ára lánstíma.  Skuldin hafi verið gjaldfelld og því verið gjaldkræf 2. maí 2000.  Fyrningarfrestur hafi því byrjað að líða, sbr. 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905.  Krafan hafi því verið fyrnd er mál var höfðað í fyrsta sinn í febrúar 2006. 

            Stefndi vísar til reglna samninga- og kröfuréttar, stjórnsýsluréttar, þ.á m. stjórnsýslulaga nr, 37/1993, og sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og eldri laga um sama efni, nr. 8/1986. 

            Forsendur og niðurstaða

            Stefndi gekkst undir ábyrgð á umræddri skuld með áritun á skuldabréf 19. mars 1997.  Gildi þeirrar ábyrgðar verður að meta eftir þeim sveitarstjórnarlögum sem þá giltu, lögum nr. 8/1986.  Með skilmálabreytingu á árinu 2000 var greiðsluskilmálum breytt verulega og vanskilum bætt við höfuðstól skuldarinnar.  Ekki verður talið að stefndi hafi þá tekið á sig einhverja ábyrgð, sem hann bar ekki þegar. 

            Samkvæmt 5. mgr. 89. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 mátti veita einfalda ábyrgð til annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins, gegn tryggingum sem sveitarstjórn mæti gildar.  Í samþykkt sveitarstjórnar stefnda 17. mars 1997 var talið að trygging er boðin var fram af Álfasteini væri fullnægjandi. 

            Í endurriti af fundargerð hreppsnefndar þennan dag er í 7. lið fjallað um erindi Álfasteins og bókað að nefndin samþykki að veita einfalda ábyrgð gegn veði í lager fyrirtækisins.  Í tryggingarbréfi sem gefið var út af Álfasteini 18. mars var ekki notað orðið veð, en þriðjungur af framleiðsluvörubirgðum settur til tryggingar ábyrgðinni.  Með þessu bréfi gat ekki stofnast gilt veð samkvæmt þágildandi veðlögum nr. 18/1887, sbr. 2. mgr. 4. gr.  Samþykkt hreppsnefndar um að meta þetta sem fullnægjandi tryggingu var því augljóslega marklaus.  Þar sem engin trygging var í raun sett var ekki fullnægt skilyrðum 5. mgr. 89. gr. eldri sveitarstjórnarlaga til að stefnda væri heimilt að veita ábyrð.  Var ábyrgðin því ógild. 

            Ábyrgðin gat ekki öðlast gildi við skilmálabreytinguna á árinu 2000, þar sem þá var stefnda vegna breyttra laga óheimilt að gangast undir slíka ábyrgð. 

            Samkvæmt þessu verður að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.  Þegar litið er til aðdraganda málsins, fyrri úrlausna um ágreining aðila og þess að frávísunarkröfu stefnda var hafnað, er rétt að málskostnaður falli niður. 

            Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

                                                           D ó m s o r ð

            Stefndi, Borgarfjarðarhreppur, er sýknaður af kröfum stefnanda, Nýja Kaup­þings banka hf.

            Málskostnaður fellur niður. 

                                                                        Jón Finnbjörnsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar