Borgfirðingar fagna komu lundans á sumardaginn fyrsta

Borgfirðingar fagna komu lundans á morgun og Héraðsbúar geta heimsótt Safnahúsið eða skroppið í Skriðuklaustur í tilefni sumarkomunnar.



„Það hefur verið hefð hjá okkur nokkrum á þessum árstíma að hittast á höfninni og fagna komu lundans með nokkrum viskístaupum, en í ár ákváðum við að bjóða öllum sem vilja að vera með okkur og mæta á höfnina um kvöldmatarleitið,“ segir Arngrímur Viðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar Álfheima.

„Lundinn hefur verið að tínast í Hafnarhólmann síðan 7. apríl, þó svo hann hafi verið kominn á sjóinn viku fyrr, en allar slíkar dagsetningar eru skráðar mörg ár aftur í tímann í dagbókina hans Magnúsar í Höfn, sem er annar eigandi Hafnarhólmas með Borgarfjarðarhreppi.

Léttar veitingar verða í boði Borgarfjarðarhrepps og við hvetjum alla til þess að koma og gera sér glaðan dag með okkur og skoða í leiðinni nýtt hús sem mun bæta aðstöðu til lundaskoðunar, en það má einnig vekja athygli á því að lundinn hjá okkur hefur það gott, hér er enginn skortu á æti eins og víða fyrir sunnan.“

Gleðin hefst á höfninni klukkan 20:00 annað kvöld.


Opið hús og afmælisfagnaður í Safnahúsinu á Egilsstöðum

Söfnin þrjú í Safnahúsinu á Egilsstöðum opna dyr sínar á sumardaginn fyrsta og bjóða til afmælisfagnaðar frá klukkan 13:00-15:00.

Árið 2016 er mikið afmælisár í Safnahúsinu á Egilsstöðum, en á árinu eru 60 ár liðin frá stofnun Bókasafns Héraðsbúa, 40 ár frá stofnun Héraðsskjalasafns Austfirðinga og 20 ár frá því að fyrsti áfangi Safnahússins var formlega tekinn í notkun og söfnin þrjú, Bókasafnið, Héraðsskjalasafnið og Minjasafnið, fluttu undir eitt þak.

Gestum og gangandi gefst kostur á að kynna sér fjölbreytta starfsemi safnanna og skoða sýningar á öllum hæðum. Fyrrverandi og núverandi starfskonur safnanna flytja ávörp, stúlknakórinn Liljurnar syngur og boðið verður upp á léttar veitingar.


Fyrirlestur um nýjar rannsóknir á beinasafni Skriðuklausturs

Dr. Steinunn Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur, flytur erindi á Skriðuklaustri undir heitinu Gull, silfur og fleiri góðmálmar, á morgun klukkan 16:00. Í því mun hún fjalla um nýjustu rannsóknir á beinasafni Skriðuklausturs sem hafa leitt í ljós óvenjuhátt hlutfall þungmálma í beinum.

Einnig mun hún segja frá leit sinni í Kaupmannahöfn að skjölum sem geta varpað ljósi á hvert gripir og góðmálmar úr klaustrunum voru fluttir eftir siðaskiptin.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Ljósmynd: Hafþór Snjólfur Helgason

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar