![](/images/stories/news/2016/Áfram_Ísland.jpg)
Borgfirðingar spá 1-0 fyrir Ísland
Austfirðingar koma saman um allan fjórðung, en gott gengi íslenska landliðsins í fótbolta hefur varla farið fram hjá nokkrum manni, en sannkallað fótboltaæði hefur runnið á þjóðina.
Ísland spilar gegn Englandi í sextán liða úrslitum á Evrópumeistarmótinu í kvöld klukkan 19:00.
Leikurinn verður sýndir í Fjarðaborg á Borgarfirði.
„Við neitum að grilla meðan á leik stendur, en bjóðum hins vegar upp á rjúkandi heita kjötsúpu, sem hæfir tilefninu vel, já og barinn verður að sjálfsögðu opinn,“ segir Ásgrímur Ingi Arngrímsson.
„Stemmningin fyrir leiknum er gríðarlega góð og mikil bjartsýni ríkir. Við sendum okkar fulltrúa í riðlakeppnina, en Óttar Már Kárason fór til Frakklands, þrátt fyrir að vera nokkuð lemstraður. Hann veit því hvað klukkan slær og spáir 1-0 fyrir okkar mönnum. Helgi Hlynur Ásgrímsson er okkar fulltrúi á leiknum í dag og ef að hann vinnst munum við senda Skúla Sveinsson í átta liða úrslitin. Þá eigum við enn inni þrjá menn þannig að við getum sent okkar menn alla leið í úrslitaleikinn,“ segir Ásgrímur Ingi.
Komið verður saman í öllum byggðarkjörnum Fjarðabyggðar og fólk hvatt til þess að mæta og sýna samstöðu.
Í Neskaupstað verður leikurinn sýndur í Egilsbúð, húsið opnar klukkan 18:00 og EM tilboð verður á barnum.
Á Eskifirði verður leikurinn sýndur á Kaffihúsinu.
Á Reyðafirði kemur fólk saman í Þórðarbúð þar sem seldur verður „þjóðarréttur Íslendinga“ - pylsa og Prins Póló ásamt drykkjum og nasli. Húsið opnar klukkan 18:00 og mælst er til þess að börn verði í fylgd með fullorðnum.
Á Fáskrúðsfirði verður leikurinn sýndur á Sumarlínu.
Á Stöðvafirði verður leikurinn sýndur á stóra skjánum á kaffihúsinu Söxu.
Á Djúpavogi verður leikurinn sýndur Við Voginn.
Á Egilsstöðum verður leikurinn sýndur á risaskjá í Valaskjálf.
Á Seyðisfirði verður leikurinn sýndur í Herðubreið.