Brennivínsflaskan er sjálfstætt listaverk

Listamaðurinn Odee, eða Oddur Eysteinn Friðriksson, er með mörg járn í eldinum og eitt af hans verkum þessa dagana er að hanna listaverk á vínflöskur fyrir Brennivin America. Óvíst er hvort flaskan verði til sölu á Íslandi.


„Ég hef verið í samskiptum við þá síðan í desember í fyrra um að gera með þeim listaverk,“ segir Odee.

Um er að ræða brennivínsflösku með norðurljósaþema, þar sem innihaldið er blandað með phosphoresence, eða maurildi, og því ekki drykkjarhæft. Maurildi er ljósfyrirbæri í hafi sem stafar af lífljómun frá skoruþörungum sem nefnast á fræðimáli noctiluca. Þessir einfrumungar gefa við áreiti frá sér ljósblossa sem verður vegna efnahvarfa fosfórsameinda.

„Þetta veldur því að flaskan glóir í myrkri og er því safngripur en ekki til drykkju. Sé flaskan hrist lítillega hvirflast innihaldið og myndar skemmtileg norðurljósaáhrif,“ segir Odee.

Skemmtilegt samstarf
Odee segir brennivínsflöskuna sjálfstætt listaverk, í rauninni gjörning. „Það var margt unnið bak við tjöldin og verkefni sem ég get ekki rætt opinberlega ennþá sem þó gætu litið dagsins ljós fyrr eða síðar. En þetta samstarf hefur verið einstaklega skemmtilegt og mun sennilega opna fleiri verkefni á sama sviði. Ég hef mikinn áhuga á vöruhönnun sem gjörning eða list í takmörkuðu upplagi og vonast til að fá fleiri verkefni í þeim dúr en ég hef mikinn áhuga á markaðsfræði, sem og sálfræði,“ segir Odee en hann leggur einmitt stund á sálfræði við Háskólann á Akureyri.

„Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur“
Þar sem flaskan er hönnuð fyrir Brennivin Amerika er ekki víst að hún verði til sölu á Íslandi. „Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að tryggja að Íslendingar fái að berja flöskuna augum. Hins vegar verða plaköt og annar varningur tengdur verkefninu í boði á Facebook-síðunni minni. Fólk þarf bara að vera duglegt að senda mér fyrirspurnir og fylgjast með.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar