Brotið á réttindum sakborninga?

Gísli M. Auðbergsson, lögfræðingur á Eskifirði, hefur áhyggjur af réttindum sakborninga í nýjum sakamálalögum. Hann segir að í þeim sé höggvið nærri trúnaðarsambandi sakbornings og verjanda.

 

Í 64. grein laganna, sem fjallar um lögregluyfirheyrslur, segir að sakborningur megi ekki ráðfæra sig við verjanda sinn um hvernig hann svari einstökum spurningum. Í færslu á heimasíðu sinni spyr Gísli hvernig þetta verði framfylgt, hvort lögreglan eigi að fylgjast með og ritskoða samtöl verjanda og sakbornings eða þau einfaldlega bönnuð.
„Velta má fyrir sér hvort hér láti ekki nærri að vera á ferðinni brot á þeim mannréttindum sökunauta að njóta aðstoðar verjanda. Þetta atriði væri vert að taka til ítarlegrar skoðunar.“
Gísli sat málþing félags lögfræðinga á Norður- og Austurlandi þar sem Sigurður Tómas Magnússon, sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík, fór yfir login. Gísli segir fjölmargar breytingar í lögunum til bóta en fundarmenn hafi fundið að ýmsum atriðum.
„Má nefna að ekki er tekið á þeim vandræðagangi sem skapast þegar Hæstiréttur þarf að endurskoða mat héraðsdóms á gildi framburða. Jafnframt má nefna að lögin gera ráð fyrir að aðalreglan verði að mál séu rekin á heimilisvarnarþingi sakaðs manns en ekki í því umdæmi þar sem brot er framið. Hætt er við að það leiði til talsvert meiri flutninga á vitnum milli staða, flóknara verði að skoða (eða þekkja) vettvang og svo framvegis.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar