Búist við húsfylli á hagyrðingamótið

Mikill áhugi er á hagyrðingamóti og kótelettukvöldi sem haldið verður í Fjarðaborg á Borgarfirði eystra um helgina. Fjörutíu ár eru síðan hátíðahald hófst þar um verslunarmannahelgi með dansleik á vegum kvenfélagsins.

„Við búumst við fullu húsi eins og í fyrra. Þetta virðist alltaf jafn vinsælt. Í fyrra var uppselt í matinn og miðað við skráninguna þá er allt að fyllast,“ segir Ásgrímur Ingi Arngrímsson, framkvæmdastjóri Já sæll sem undanfarin 15 ár hefur verið með rekstur í félagsheimilinu Fjarðarborg.

Hagyrðingakvöldið hefur lifað þar góðu lífi. „Á næsta ári verða 30 ár frá fyrsta hagyrðingamótinu. Á þeim tíma hefur það fallið niður þrisvar, tvisvar vegna Covid og einu einni út af aumingjaskap! Þegar fyrsta mótið var haldið árið 1995 voru svona mót víða um land en þeim hefur síðan fækkað,“ útskýrir Ásgrímur Ingi.

Verslunarmannahelgarhátíðir á Borgarfirði í 40 ár


Í ár eru liðin 40 ár frá fyrstu verslunarmannahelgardagskránni á Borgarfirði en árið 1984 sló kvenfélag staðarins upp dansleik í Fjarðarborg. Sama sumar mætti Bítillinn Ringo Starr á útihátíð í Atlavík.

„Dansleikurinn var ætlaður fullorðnara fólki en veltist um í Atlavík. Ballið varð mjög fjölmennt og í kringum það var síðan byggður Álfaborgarsjens.“

Því nafni hefur nú verið lagt, að minnsta kosti í bili, en áfram er viðburðahald í Fjarðarborg. „Verslunarmannahelgin hefur aðeins breytt um takt eftir að Bræðslan varð svona stór. Það er erfitt að halda hátíð tvær helgar í röð. Á Álfaborgarsjens var reynt að vera með eitthvað alls staðar á Borgarfirði en dagskráin nú er hófstillt.“

Eftir hagyrðingakvöldið er dansleikur með hljómsveit Jóns Arngrímssonar. Á laugardagskvöld verða tónleikar með hljómsveitinni Hundur í óskilum. „Það er smá nostalgía í ballinu með Jóni. Við fundum það hins vegar þegar við tókum við Fjarðarborg að forsendur dansleiksins voru brostnar. Fólkið sem sótti hann áður vildi núna frekar sitja og syngja og okkar kynslóð hefði þurft að fara á dansnámskeið.

En það vill enginn sjá á eftir hagyrðingakvöldinu og það hentar vel að hafa eitthvað með því. Í fyrra var húsfyllir á sýningu Gísla Einarssonar sem sýnir að það er enn ferðahugur í fólki.“

Ný sýning í Glettu


Til viðbótar við dagskrána í Fjarðaborg þá opnar Ásta Kristín Knight Þorsteinsdóttir frá Jökulsá myndlistarsýningu Glettu í Hafnarhúsinu. Ásta útskrifaðist í vor af textílbraut Myndlistaskólans í Reykjavík. Hún vinnur með textíl og textílaðferðir, einkum vefnað. Sýningin kallast „(að) kveðja – kortlagning minninga“ og efniviðinn sækir Ásta mikið í landslagið sem hún ólst upp við á Borgarfirði.

Mynd: Hafþór Snjólfur Helgason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar