Dagskrá helguð merkum Eskfirðingi

Kirkju- og menningarmiðstöðin í Fjarðabyggð heiðrar minningu eins ástsælasta og virtasta píanóleikara Íslendinga, Eskfirðingsins Rögnvaldar Sigurjónssonar, með því að efna til dagskrár í tali og tónum. Rögnvaldur hefði orðið níræður á morgun. Tónleikarnir verða á sunnudaginn 19. október og hefjast kl:16.00. Aðgangur er ókeypis.

Tónleikarnir verða haldnir í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskirði, en Rögnvaldur fæddist á Eskifirði og bjó þar fyrstu ár ævi sinnar. ... rggi1.jpg

Hann var sonur Sigurjóns Markússonar sýslumanns.á Eskifirði, en geta má þess að Gísli Magnússon píanóleikari er fæddur á Eskifirði árið 1929, einnig sonur sýslumannsins á staðnum. Frá þessu greinir í fréttatilkynningu frá Kirkju- og menningarmiðstöðinni.

,,Á þessum tónleikum verður píanótónlist að sjálfsögðu í hávegum höfð og flytjendur eru fyrrum nemendur og samstarfsmenn Rögnvaldar. Það verða þeir Halldór Haraldsson, Ólafur Elíasson og Þorsteinn Gauti Sigurðsson. Þá verða sérstakir gestir, Karlakórinn Glaður, en faðir Rögnvaldar var einn af stofnendum karlakórsins. Ásamt þeim ræðir Geir Rögnvaldsson, sonur Rögnvaldar, um líf hans og rifjar upp merkileg atvik úr lífi föður síns. Þá flytur bæjarstýra Fjarðarbyggðar ávarp og væntanlega hafa flytjendur einnig eitthvað um Rögnvald að segja

Með þessum tónleikum viljum við í Fjarðabyggð heiðra minningu mikils listamanns sem hér er fæddur og endurgjalda þá virðingu er hann sýndi Eskfirðingum. Í öðru lagi viljum við einnig minna Austfirðinga alla á þá menningarsögulegu staðreynd hvað héðan úr þessum jarðvegi hefur sprottið. Í þriðja lagi viljum við vekja athygli Íslendinga á því mikla menningarstarfi sem hér fer fram, í þessum góða tónleikahúsi og aðstöðu sem hér er, og tengja Austfirskt menningarlíf frekar við menningarsögu landsins," segir í fréttatilkynningunni.

Rögnvaldur kom víða við og snerti fleira en píanóstrengi á sinni tíð

Rögnvaldur Sigurjónsson ólst upp í Reykjavík. Hann var valinn í sundknattleikslið Íslands sem keppti á Ólympíuleikunum í Berlín 1936. Hann lauk prófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1937 og nam eftir það píanóleik hjá M. Ciampi í París 1937-1939 og M. Horzovsky og Sascha Gorodnitzki í New York 1942-1945. Rögnvaldur kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík frá 1945-1986 en hann var yfirkennari við framhaldsdeild í píanóleik frá árinu 1959. Hann kenndi við Nýja tónlistarskólann frá 1986 og til dauðadags. Rögnvaldur hélt fjölda einleikstónleika, kom fram með hljómsveitum og í útvarpi og sjónvarpi bæði heima og erlendis, m.a. á Norðurlöndunum, Ameríku og Vestur- og Austur- Evrópu. Hann gerði vinsæla þáttaröð, Túlkun í tónlist, fyrir útvarp á árunum 1985-1988. Hann gaf út tækniæfingar fyrir píanóleik. Eftir Rögnvald liggja einnig tvær minningabækur, Spilað og spaugað og Með lífið í lúkunum, báðar ritaðar af Guðrúnu Egilson. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir íslenska tónlistarmenn, var m.a. formaður FÍT frá 1977 til 1983. Rögnvaldur var forseti Einleikarasambands Norðurlanda 1979 til 1981 og var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu. Hann var heiðursborgari Winnipegborgar í Kanda og heiðursfélagi FÍT.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.