Djúpivogur verði glaðasti bærinn
Á Djúpavogi var á dögunum haldið námskeið fyrir íbúa í þeim tilgangi að hjálpa þeim að líða betur og vera glaðari. Greta Mjöll Samúelsdóttir atvinnu- og menningarmálafulltrúi segir mikilvægt að velja að dvelja í gleðinni.
Námskeiðið tengist Cittaslow hugmyndafræðinni en Djúpavogshreppur hefur verið hluti af Cittaslow hreyfingunni síðan 2013 og leggur því sérstaka áherslu á bætt lífsgæði íbúa og umhverfismál. Greta Mjöll segir námskeiðið hafa gengið vel og þátttöku hafa verið góða. „Við stefnum að því að þetta sé aðeins byrjunin í því ferli að hjálpa íbúum að líða aðeins betur og vera aðeins glaðari þegar við getum. Við lærðum til dæmis að þetta er spurning um hvar við ætlum að eiga lögheimili, í gleðinni eða leiðanum. Það er eðlilegt, og í rauninni bráðnauðsynlegt, að líða stundum illa og vera sorgmædd eða pirruð. En það er hins vegar ákvörðun hvort við ætlum að dvelja þar á hverjum degi eða eiga kannski lögheimili okkar hinu megin við lækinn og vera í grunninn aðeins glaðari. Það er í heildina stefna Djúpavogshrepps, að lögheimili okkar sé frekar í gleði, vexti og uppbyggingu á fólki,“ segir Greta Mjöll.
Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Bjartur Guðmundsson frammistöðuþjálfari og leikari, Áshildur Hlín Valtýsdóttir kennari og markþjálfi og Páll Jakob Líndal dr. í umhverfissálfræði. „Í Cittaslow viljum við vinna með heildstæða nálgun, sem er nauðsynleg þegar byggt er upp fyrirmyndarsamfélag. Hér er fléttað saman skipulagi, hönnun og mótun umhverfis, andlegum málefnum, umhverfismálum, ábyrgð fólks á eigin lífi og velferð, gleði, hvatningu, samskiptum, vellíðan og mörgu fleiru í einn stóran pakka. Okkur datt því í hug að fá fagfólk til okkar sem gæti hjálpað okkur með þessa heildstæðu nálgun og prófa þannig dálítið nýjar aðferðir. Þau voru því fengin til okkar með skemmtilega fyrirlestra, æfingar og nálganir fyrir íbúa,“ segir Greta Mjöll.
Öllum nemendum skólanna tveggja, leikskóla og grunnskóla, var einnig boðið upp á þessa fræðslu á þemadögum. “Í fræðslunni fyrir skólana var grundvallargildum, umhverfismálum, skipulagi innan þéttbýlis, göngustígum, hönnun skólalóðar, reglum um dýrahald og mörgu fleiru var fléttað saman við stefnuna um að verða glaðasti bærinn.“