Dæmt til að greiða ógreidd vinnulaun
Starfsmaðurinn
benti á að hann hefði aldrei fengið orlof né desemberuppbót greidda, fengið greitt
fyrir yfirvinnu sem dagvinna væri og vegna verkefnaskorts bara fengið brot af
því fulla starfi sem hann var ráðinn til. Að auki var húsaleiga hans hækkuð um
helming á tveimur mánuðum.
Fyrirtækið sagði
starfsmanninn meðal annars hafa ekki innt af hendi umsamdar vinnustundir og
mætt illa eða svikist alveg um það seinustu mánuðina í starfi. Starfsmaðurinn
vísaði ásökunum um vinnusvik á bug. Það hafi kostað fjárútlát. Álfasteinn
sagðist hafa greitt kröfu starfsmannsins að fullu og eiga kröfur á móti.
Fullkomlega starfsmanninum í hag
Í niðurstöðu
dómsins segir að Álfasteini hafi verið skylt að greiða yfir unna yfirvinnu. Það
viðurkenndi að hafa ekki greitt orlof, orlofsuppbót og desemberuppbót samkvæmt
gildandi kjarasamningi. Engin gögn komu fyrir dóminn að fyrirtækið hefði gert
athugasemdir við vinnulag starfsmannsins og ósannað að hann hafi ekki skilað
fullu vinnuframlagi vegna ástæðna sem hann bæri ábyrgð á. Fyrirtækinu var
einnig óheimilt að hækka húsaleiguna einhliða.
Endanlegar kröfur
starfsmannsins voru teknar til greina að fullu með dráttarvöxtum, eins og
krafist var. Fyrirtækinu var einnig gert að greiða tæplega sex hundruð þúsund
krónur í málskostnað.
Tvö mál á stuttum
tíma
Þetta er í annað
skiptið á stuttum tíma sem Álfasteini er gert að greiða fyrrum starfsmanni
ógreidd vinnulaun. Í mars var fyrirtækið greitt til að greiða kanadískum
starfsmanni fimmtíu þúsund krónur fyrir ógreidd laun og orlof. Dómkröfur
stefnanda voru þá teknar til greina að öllu leyti. Málskostnaður, tæplega 300
þúsund krónur, var felldur á fyrirtækið.
Árangur AFLs
Lögmenn AFLs
starfsgreinafélags höfðuðu bæði málin fyrir hönd starfsmannanna. Í frétt á vef
félagsins segir að dómarnir séu þeir seinustu í röð innheimtu- og
vinnuréttarmála sem það hafi unnið fyrir dómstólum seinustu ár.
„AFL hefur aðeins
tapað einu máli síðustu ár og lögum er
varða viðkomandi málsatvik í því máli var breytt skömmu síðar þannig að
sambærilegt mál myndi vinnast í dag. AFL Starfsgreinafélag beitir ákveðnum
verkferlum við innheimtu og hagsmunagæslu fyrir félagsmenn og þrátt fyrir mikinn
málafjölda síðustu ára hefur félagið ávalt boðið viðeigandi fyrirtækjum
viðræður um málsatvik og sátt - sé þess nokkur kostur. Oft tekst að leysa mál
þannig áður en til stefnu eða málaferla kemur - en sinni fyrirtæki ekki erindum
félagsins fylgja lögmenn málum eftir.“