Dúkkur skapa hlýlegt andrúmsloft á hjúkrunardeildinni
Deildarstjóri hjúkrunardeildar HSA í Neskaupstað, Anna Sigríður Þórðardóttir, óskaði eftir dúkkum á hjúkrunarheimilið á Facebook. Hún telur mikilvægt að hafa hlýlegt og heimilislegt andrúmsloft í kringum fólkið á hjúkrunardeildinni.
„Kæru bæjarbúar. Það vantar dúkkur á hjúkrunarheimilið sem við getum haft í setustofu og hjá íbúunum okkar. Ef einhver væri aflögufær eða ef einhverjir krakka vildu þiggja að gamla fólkið fengi að hugsa um dúkkurnar þeirra þá værum við svo þakklát,” skrifaði Anna Sigríður í færslunni.
Anna Sigríður segir að þau séu fyrst og fremst að reyna að skapa heimilislega og hlýlega stemningu á hjúkrunarheimilinu. „Við viljum reyna að hafa heimilislegt hjá okkur, kannski hafa eina sparidúkku úti í horni og tengja líka við gamla tímann.”
„Við erum ekki farin að sjá eða reyna á það hvort þetta skili því að einhver vilji hlúa að dúkkunni,” segir Anna Sigríður. Ástæða þess að Anna Sigríður birti auglýsinguna á Facebook er sú að þau vilja frekar endurnýja lífdaga dúkkna sem eru ekki notaðar lengur, í staðinn fyrir að kaupa nýtt. „Það er svo oft sem eitthvað liggur og er ekki notað og kannski eru krakkar sem myndu sjá hag í því að gamla fólkið gæti hugsað um dúkkurnar sem þau eru hætt að leika með.”
Í kjölfar auglýsingarinnar fékk hjúkrunardeildin eina dúkku af nytjamarkaðnum og svo var ein stúlka sem vildi gefa dúkku. “Þurftum kannski ekki nema eina eða tvær, við erum alltaf að reyna að gera heimilislegt. Þetta er lítil deild og oft þröngt í kringum okkur svo við viljum passa upp á að hafa hlýlegt í kringum fólkið okkar því þetta er heimilið þeirra,” segir Anna Sigríður.