Efniviður í listaverkin af ruslahaugunum
Endurnýting efniviðar í listsköpun var áberandi á uppskeruhátíð listahátíðarinnar LungA á föstudag. Leiðbeinendur í listasmiðjum vikunnar beindu þátttakendum markvisst inn á þær brautir.Segja má að þrjár listasmiðjur af níu hafi gagngert snúist um endurnýtingu hráefnis og þá var þema málstofu LungA að þessu sinni framtíðarsýn, með áherslu á umhverfismál og sjálfbærni.
Í sýningaraðstöðu Heima mátti á föstudag líta afrakstur smiðjunnar „Samsetning efna“ sem leidd var af dönsku arkitektapari sem kenndi þátttakendum að sjá nýja möguleika í núverandi efnum og endurskoða samsetningu efna.
Í húsnæði Smyril Line var afrakstur vinnustofunnar „Efnisheimur“ sem vöruhönnuðurinn Bragi Steinn Blumenstein leiddi. Þar var reynt að horfa á hluti frá nýju sjónarhorni og nálgast ónýta hluti sem hráefni. Samhliða því sem hlutirnir öðluðust nýtt líf var ferlið við það skrásett.
Þriðja smiðjan kallaðist „Kristalsnáma“ en henni stýrði sjónlistamaðurinn Hrafnkell Sigurðsson. „Við vorum að vinna með náttúruna og þann efnisheim sem býr í henni. Við fórum mikið á sorpmóttökustöðina og gámasvæðið til að finna efnivið og búa til skúlptúra. Ruslið er líka efniviður,“ segir Aron Steinn Halldórsson, einn þeirra sem tóku þátt í smiðjunni.
Afrakstur smiðjunnar var sýndur í kjallara Gamla ríkisins. Aron Steinn átti þar verk sem var allt í senn videoverk, skúlptúr, veggverk og hljóðheimur. Meðal gripa í verkinu var gamalt reiðhjól.
„Það tengist hjólreiðum einhvern vegin, en samt ekki. Það er meira verið að hugsa um óreiðuna í umferðinni eða lífinu í heild sinni. Það er alltaf sá möguleiki að taka pásu og eiga smá næði.“