Vinkonurnar og Lily Allen hennar helstu fyrirmyndir

Sviðslistakennarinn Emelía Antonsdóttir hefur haldið dansnámskeið á Austurlandi undanfarin sumur. Hún er í yfirheyrslu vikunnar.


Emelía er starfandi verkefnastjóri skapandi sumarstarfa á Fljótsdalshéraði og í Fjarðabyggð.

„Hópurinn nefnist Orðið er Laust og ég hvet alla til að fylgist með þeim á Facebook og Instagram. Þá verð ég jafnframt með skapandi leiklistar- og dansnámskeið á Breiðdalsvík og Fáskrúðsfirði, sem eru hluti af skapandi sumarsmiðjum Fjarðabyggðar. Ég verð einnig með skapandi listahóp hjá unglingavinnuni á Fljótsdalshéraði. Já og auðvitað tek ég þátt í menningarhátíðinni BRAS, í haust.

Þá rek ég einnig litla farandlistdansskólann minn, Dansstúdíó Emelíu, á Reyðarfirði og Egilsstöðum fyrstu þrjár vikurnar í júní og enn er hægt að skrá sig þar, en námskeiðin eru styrkt af Fljótsdalshéraði, Fjarðabyggð og Uppbyggingarsjóði Austurlands,“ segir Emelía, sem bjó á Egilsstöðum til níu ára aldurs.
„Mamma mín er frá Seyðisfirði og pabbi minn er franskur. Síðastliðin 12 ár hef ég búið í Reykjavík á veturnar en fyrir austan á sumrin. Ég er að ljúka mastersnámi í sviðslistakennslu í Listaháskóla Íslands. Mastersverkefnið mitt fjallar um jákvæð tengsl ADHD og sviðslista.“

Fullt nafn: Emelía Antonsdóttir Crivello.

Aldur: 32 ára.

Starf: Sviðslistakennari.

Maki: Makalaus.

Börn: Lukka, 6 ára.

Hver er þinn helsti kostur? Frumkvöðull.

Hver er þinn helsti ókostur? Utan við mig og gleymin.

Hver er þín fyrsta minning? Ströndin á Hawaii.

Hvað hræðist þú? Ég er mjög lofthrædd.

Duldir hæfileikar? Ofureinbeiting.

Mesta undur veraldar? Dóttir mín.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að þurfa aldrei að sofa.

Dansar þú til að gleyma? Ég dansa til að lifa.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Fagravík.

Besta bók sem þú hefur lesið? Hvítfeld-fjölskyldusaga.

Hvernig myndir þú lýsa þínum fatastíl? Afslappaður og skandinavískur.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Dijon sinnep, mjólk og grænmeti.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Sumarið. Birtan, sólin, hamingjan og orkan.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Frida Kahlo.

Settir þú þér áramótaheit? Nei, en set mér oft markmið á haustin.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Vinkonur mínar og Lily Allen.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Loftslagsmálunum að sjálfsögðu og svo er jafnrétti mitt hjartans mál.

Topp þrjú á þínum „Bucket List“? Ferðast um Asíu, að læra að elda gott Pad-Thai og klára mastersverkefnið mitt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar