„Ég er austasti og vestasti gítarkennari landsins“

„Ég hef verið að kenna fullorðnum í gegnum netið og á Youtube með góðum árangri og því tilvalið að prófa þetta líka,“ segir tónlistarmaðurinn og gítarleikarinn Jón Hilmar Kárason í Neskaupstað, en hann hefur í vetur einnig kennt nemendum í 7.-10. bekk í Vesturbyggð á gítar.



Jón Hilmar hefur haldið úti fullorðinskennslu á gítar og er með á þriðja hundrað manns á póstlista sem hann sendir reglulega kennsluefni gegnum netið og á Youtube.

„Það er oft erfitt að fá tónlistarkennara útá land og Einar Bragi vinur minn var í tómum vandræðum með gítarkennsluna hjá sér en hann er skólastjóri í Vesturbyggð. Hann vissi af því að ég væri að þróa kennslu í gegnum netið og hringdi í mig og spurði hvort ég gæti hjálpað til en krakkarnir þekktu til mín eftir heimsókn mína með gítarnámskeið vestur í vetur. Ég er að kenna nokkrum krökkum á í 7-10 bekk á Patreksfirði og Bíldudal. Ég er sem sagt bæði austasti og vestasti gítarkennari landsins.“



Æfingar skipta mestu máli

Fyrirkomulagið er þannig að nemendurnir mæta í tónlistarskólann og nota tölvurnar þar.

„Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Ég sendi þeim slóð og læt þau hafa heimaverkefni í gengum G-drive. Mynd og hljóðgæði eru nokkuð góð öllu jöfnu og ég lendi mjög sjaldan í vandræðum með tæknina. Munurinn er auðvitað nokkur á að kenna yfir netið og sitja fyrir framan nemandan. Kennarinn verður að undibúa sig svoítið öðurvísi og kennsluefnið þarf að sníða að netkennslu. Ég er að skrifa gítarbók sem hentar vel þegar þarf að útskýra. En eins og með allt tónlistarnám þá skiptir mestu máli að nemandinn leggi sig fram og spili reglulega á hljóðfærið. Það skiptir ekki máli þó þú sért með besta kennara í heimi ef þú æfir þig ekki neitt.“


Hægt að nýta tæknina í auknum mæli

Jón Hilmar segist hafa hug á því að kenna áfram gegnum netið og þróa það meðfram kennslunni í Tónskóla Neskaupstaðar.

„Það er hægt að nýta tæknina meira en við höfum gert í þessu tilliti. Ég sé fyrir mér að tónlistarskólar nýti sér netkennslu þetta í auknu mæli í framtíðinni. Það er svo mikilvægt fyrir tónlistarmenendur að hitta kennara til að geta spurt og stytt sér leiðina og netið er góður staður til þess.“

Þeir sem hafa áhuga á að kynnast því sem Jón Hilmar er að bralla geta heimsótt heimasíðuna www.jonkarason.is.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar