Orkumálinn 2024

„Ég er mikið fyrir svona fimmtán sekúndna frægð“

Sr. Benjamín Hrafn Böðvarsson prestur í Austfjarðaprestakallivakti vakti athygli síðustu jól þegar hann sjálfur söng Ó helga nótt. Hann lét ekki þar við sitja og kom öllum á óvart og söng í lokaatriði Kommablótsins í Neskaupstað við mikinn fögnuð viðstaddra.


Misskilningur að ofan
„Þetta með aftansönginn æxlaðist þannig að Ó, helga nótt er mitt uppáhalds jólalag og mig langaði að það yrði sungið en organistinn misskildi mig og hélt að ég ætlaði syngja lagið einn.

Ég sló bara bara til en var að sjálfsögðu stressaður. Þetta var minn fyrsti aftansöngur en ég æfði mig helling og kórinn söng svo með og studdi mig í þessu,“ segir Benjamín.

Hann segist hafa fengið góð viðbrög við söngnum og skynjað á salnum að þetta hafi verið eitthvað sem fólk var ekki vant að upplifa í messu og hvað þá aðfangadagsmessu.

Tók þátt í gríni á sinn kostnað
Aftansöngur Benjamíns spurðist fljótt út og stjórn Kommablótsins sá sig knúna til og fannst tilvalið gera grín að þessum nýstárlegheitum en fljótlega þróaðist atriðið þannig að Benjamín sjálfur kom óvænt upp á svið og lék sjálfan sig.

„Það var bara frábært og mjög skemmtilegt að fá að taka þátt í þessu. Ég er mikið fyrir og hef gaman að svona fimmtán sekúndna frægð,” segir Benjamín kíminn.

“Ég sá kynningarmyndbandið fyrir Kommablótið og sá að nafnið mitt kom fyrir. Ég gat ekki látið þá komast upp með það án þess að taka þátt í þessu sjálfur. Við hittumst og úr varð að ég myndi syngja lag Auðar, Engin eins og þú, með nýjum texta.

Mér fannst þetta frábært og líka bara gaman að sjá metnaðinn sem er lagður í skemmtiatriðin og blótið sjálft.”


Ný kynslóð
Framundan eru miklu breytingar innan kirkjunnar að sögn Benjamíns, það gerist óhjákvæmilega með nýjum kynslóðum. Hann segir að þau fjögur sem sett voru í embætti síðasta sumar séu mjög ólíkir prestar og þar af leiðandi með ólíkar áherslur.

„Ég nota tónlistina einmitt mikið, sérstaklega í barnastarfinu eins og í Sunnudagaskólanum. Mig langar að nota tónlistina meira og eitt sem mig langar til dæmis að vera með hérna eru barnakórar og æskulýðshljómsveitir. Ég er líka mikill aðdáandi gospeltónlistar og það eitt og sér getur verið eitthvað sem getur kryddað kirkjustarfið.


Gospeltónlistin er svo fjölbreytt og kirkjan þarf að nálgast nútímann meira og ég held að tónlistin sé einn af lykilþáttunum í þeirri þróun,“ segir Benjamín og hver veit nema hann bjóði upp á messu þar sem allt er sungið. Kannski söngleikja-gospelmessu. Hver veit?


Sr. Benjamín Hrafn óeinkisklæddur en syngjandi sæll og glaður í sól sem er sjaldséð um þessar mundir.  Myndi: Úr einkasafni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.