„Ég er nánast farin að hugsa á íslensku“

Nikolina Mehica er hagfræðingur frá Bosníu sem búsett er á Reyðarfirði með fjölskyldu sinni þar sem hún starfar sem deildarstjóri á leikskólanum Lyngholti. Þau hafa verið á landinu í tíu ár og ætla ekki að snúa til baka, Ísland er þeirra heima.



Nikolina er gift Amir Mehica og saman eiga þau dæturnar Farah sjö ára, Dalal fimm ára og tvíburana Sarah og Ema sem eru tveggja ára.

Nikolina og Amir komu upphaflega til landsins vegna þess að honum bauðst að spila fótbolta með Haukum í Hafnarfirði. Ætlunin var að vera aðeins í þau tvö ár sem samningurinn kvað á um en árin urðu fleiri og segir Nikolina fjölskylduna ekki ætla að flytjast aftur til Bosníu.

 

Stríðið raskaði fjölskyldunni lítið

Nikolina er frá Zenica sem er 160 þúsund manna bær skammt frá höfuðborginni Sarajevo en þar ólst hún upp með foreldrum sínum og systur.

Stríðið í Bosníu og Hersegóvínu á seinasta áratug síðustu aldar hafði umtalsverð áhrif á samfélagið í Bosníu en Nikolina segir að það hafi þó ekki raskað hennar fjölskyldu mikið.

„Ég var 11 ára þegar stríðið hófst. Við systurnar fórum reyndar með mömmu í næsta bæ, þaðan sem hún var. Pabbi fór ekki með okkur, karlmennirnir fóru ekki úr bænum. Við komum aftur ári seinna en pabbi bjó allan tímann í húsinu okkar sem skemmdist ekki neitt og enginn úr okkar fjölskyldu meiddist. Það var ekki mikið um sprengingar í okkar bæ heldur var honum lokað og því ekki hægt að komast þangað með mat eða aðrar nauðsynjar.

Þegar ég hugsa til baka hefur þetta verið mikið álag fyrir mömmu en hún hélt okkur systrunum algerlega utan við það að einhver hætta væri á ferðum. Í rauninni man ég lítið eftir þessum tíma, ég var bara stelpa sem var með vinkonum mínum og var ekkert að hugsa um þetta,“ segir Nikolina.

 


„Vissi strax að þetta yrði maðurinn minn“

Foreldrar Nikolinu voru bæði útivinnandi, faðir hennar hannaði leiðakerfi fyrir strætisvagna í allri Júgóslavíu og móðir hennar starfaði sem bókari á lestarstöð. Móðir hennar og systir búa enn í Bosníu en faðir hennar er látinn.

„Ég kláraði menntaskóla og háskóla í Bosníu. Ég var alltaf ákveðin í að læra hagfræði en ég er mjög góð í stærðfræði og allri skipulagsvinnu.“

Nikolina og Amir kynntust árið 2001 þegar hann gekk til liðs við fótboltalið í hennar heimabæ, sem markmaður.

„Ég vissi strax að þetta yrði maðurinn minn þegar ég sá hann en hann vissi ekkert um það. Ég var bara viss um að við myndum giftast,“ segir Nikolina.

Nikolina og Amir voru búin að vera saman í fimm ár áður en þau fluttu til Íslands, en flutningurinn kom óvænt uppá.

„Það kom þjálfari frá Bosníu til Amir sem hafði verið lengi á Íslandi og bauð honum að koma og spila fyrir Hauka í Hafnarfirði. Þarna vorum við bara 25 ára og barnlaus og ákváðum að slá til.

Ég kláraði námið í desember 2005 og flutti til Íslands í janúar 2006 en þá var Amir búinn að vera þar í hálft ár.“



Öll fjölskyldan komin með íslenskan ríkisborgararétt

Nikolina segir þau ekkert hafa vitað um Ísland áður en þau fóru af stað, aðeins að hér væri mjög kalt, rólegt og fámennt. Samningurinn var til tveggja ára og eftir þann tíma ætluðu þau að snúa til baka.

Amir framlengdi hins vegar samning sinn við Hauka í tvígang og var markvörður þeirra á árabilinu 2005-2010. Mestan hluta þess tíma vann Nikolina hjá Góu-Lindu með fæðingarorlofshléum en eldri dætur þeirra fæddust árið 2008 og 2010.

Árið 2011 undirritaði hann samning við lið Fjarðabyggðar.

„Þarna vorum búin að ákveða að vera áfram á Íslandi. Við erum öll komin með íslenskan ríkisborgararétt og erum alveg hætt að hugsa um að fara til baka til Bosníu. Kannski förum við þegar við verðum gömul en stelpurnar munu líklega ekki flytja til Bosníu þannig að það er ólíklegt,“ segir Nikolina.



Vissi ekki að til væri eins lítill bær og Reyðarfjörður

Amir spilaði fyrir Fjarðabyggð frá 2011-2013. Hann vinnur nú við framleiðslustörf hjá Alcoa Fjarðaáli.

„Ég vissi ekki að það væri til svona rosalega lítill bær eins og Reyðarfjörður. En þar sem við erum ekki með fjölskyldu á Íslandi fannst mér ekki skipta máli hvar við myndum búa og var því til í að fara austur í þessi tvö ár sem samningurinn var.

Mér leið ekki vel til þess að byrja með, ég í fæðingarorlofi með Dalal og var því bara föst heima og Amir var mikið að heiman. Ég var svo atvinnulaus í ár eftir fæðingarorlofið og var alveg að verða brjáluð og sagði reglulega að ég yrði bara einn mánuð í viðbót, svo færi ég suður.

Það breyttist svo allt þegar ég fékk vinnu á leikskólanum Lyngholti vorið 2013 en ég fór þó fljótlega í fæðingarorlof með tvíburastelpurnar mínar og kom ekki aftur til vinnu fyrr en vorið 2015. Ég hafði aldrei unnið á leikskóla áður en finnst það mjög skemmtilegt. Fyrst var ég bara starfsmaður á deild en hef verið deildarstjóri frá því vorið 2015.“


Gott að búa í Fjarðabyggð

Nikolina segir fjölskylduna kunna afar vel við sig í Fjarðabyggð. „Þegar ég flutti austur ætlaði ég ekki að vera deginum lengur en tvö ár, hélt ég gæti ekki búið á svona litlum stað. Núna vil ég ekki fara, það væri frekar Amir. Ég er búin að aðlagast vel, er í góðri vinnu, á vini og allt er svo auðvelt.

Við fórum í frí til Reykjavíkur í sumar og ég varð alveg uppgefin og hugsaði hvernig ég hefði getað búið þarna, kannski get ég það aftur þegar stelpurnar verða eldri.

Mér líður vel hérna og vona að ég fái tækifæri til þess að starfa sem hagfræðingur einhvern tímann. Ég er búin að láta þýða diplóamaprófið og staðfesta það við Háskóla Íslands og er með rétt til þess að kalla mig hagfræðing. Ég veit þó að ef ég myndi hætta á leikskólanum þá myndi ég sakna vinnunnar og fólksins.“


Gott skipulag á stóru heimili

Það er mikið að gera á stóru heimili og Nikolina er spurð að því hvernig þau hjónin haldi sambandinu góðu.

„Það er mjög mikið að gera en við höfum alltaf haft gott skipulag á því hver á að gera hvað, við Amir vinnum mjög vel saman. Við höfum líka alltaf passað upp á að eiga kvöldin út af fyrir okkur og stelpurnar fara snemma að sofa. Það skiptir miklu máli af því að við höfum ekki pössun hér á Íslandi en nýtum okkur hana þegar við erum í Bosníu, þá er auðvelt fyrir okkur að fá tíma fyrir okkur.“


„Ákvað að það myndi ekki kosta mig neitt að læra málið“

Nikolina hefur náð mjög góðu valdi á íslenskunni en hún fór fljótlega í íslenskunám í Mími símenntun í Reykjavík.

„Ég hugsaði með mér að þó svo ég ætlaði ekki að setjast að á Íslandi myndi það ekki kosta mig neitt að læra málið. Manni líður ekki vel ef maður skilur ekkert og getur ekki tjáð sig,“ segir Nikolina sem tók þrjú íslenskunámskeið hjá Mími símenntun í Reykjavík og síðar í Austurbrú.

Í upphafi fannst mér alveg ótrúlegt að hlusta á íslenskuna, hún er rosalega erfið og ég gat ekki ímyndað mér hvernig ég ætti að læra þetta.

Um leið og ég gat gert mig aðeins skiljanlega ákvað ég að ég myndi tala íslensku, til dæmis í banka og búð. Þegar ég kom og talaði sagði afgreiðslufólkið: „Ha?“. Ég bara endurtók aftur og aftur þar til það skildi mig í stað þess að gefast upp.

Núna er þetta orðið allt í lagi og ég nánast farin á hugsa á íslensku. Það hjálpar mjög mikið að vinna á leikskóla því þá er ekkert annað í boði en að tala málið.“


Reyndi að þvo af sér vondu lyktina af heita vatninu

Nikolina segir frá því að henni hafi þótt margt undarlegt á Íslandi til þess að byrja með.

„Ég var lengi að venjast lyktinni af heita vatninu í Reykjavík, mér fannst hún alveg ógeðsleg. Þetta vandist eins og annað en þegar við förum í frí til Reykjavíkur minnast stelpurnar mínar á það hve vond lykt sé af vatninu.“

Nikolina segist einnig hafa orðið mjög undrandi þegar hún mætti með elstu dóttur sína til dagmömmu sem sagði henni að hún þyrfti að koma með barnavagn í vistina.

„Ég spurði hana af hverju ég þyrfti þess. „Börnin sofa úti,“ sagði hún. Ég sagði bara HA? Nei, hún er ekki að fara að sofa úti, ég hélt að hún væri að grínast í mér. Ég fór svo beint í 66ᵒN og keypti öll hlýjustu útifötin sem til voru í búðinni og besta kerrupokann. Ég get ekki ímyndað mér hvað dagmamman hugsaði þegar ég kom með allt dótið. Maður er alltaf að læra, öll börnin mín sváfu svo úti eftir þetta.“


Skilur ekki af hverju Íslendingar drekka eitthvað annað en vatn

Nú er þorrinn runninn upp. „Ég smakka pínu þorramat en borða ekki mikið af honum. Líka voðalega lítið af skötunni á Þorláksmessu. Annars finnst mér íslenskur matur bæði mjög fínn og góður, nema slátur! Ég get ekki borðað það, bara get það ekki.

Íslenska vatnið er hins vegar það langbesta í heimi, öðruvísi en alls staðar annars staðar í Evrópu. Ég get ekki drukkið vatnið í Bosníu lengur, það má vel drekka það úr krananum en sumir kaupa það út í búð. Ég skil ekki af hverju Íslendingum dettur í hug að drekka eitthvað annað en vatn, ég get ekki lýst því hvað íslenskt vatn er gott!“

nikolina 2

Nikolina 3

Viðtalið í heild sinni má lesa í 3. tbl Austurgluggans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar