Ég sagði við alla og allir við mig: Að flytjast á Vopnafjörð er spor í rétta átt fyrir okkur

Kristinn Ágústsson hætti sem verslunarstjóri í Hafnarfirði í haust og flutti sig austur á Vopnafjörð með sex manna fjölskyldu til að takast við stöðu hafnarvarðar, starfi sem hann þekkti ekkert til í. Fjölskyldunni var vel tekið enda þörf á börnum í samfélagið.


„Langflestir sem maður hittir bjóða mann velkominn heim. Ég hafði samtals búið hérna í hálft ár þegar ég flutti „heim“ í haust,“ segir Kristinn í viðtali í síðasta tölublaði Austurgluggans.

Kona Kristins, Freyja Wiium, er frá Vopnafirði og þar bjuggu þau hálft árið 2003 og spilaði Kristinn fótbolta með Einherja það sumar. Síðan hafa þau verið syðra þar til haust.

„Við höfum talað um það síðustu tvö ár að okkur langaði aftur á Vopnafjörð og ég sá starfið auglýst á netinu og lét vaða. Það er þannig séð út fyrir minn þægindaramma. Ég hef aldrei unnið við neitt sem tengist höfn eða fiski. Það bjargar þessu að ég er snöggur að læra.“

Þakkar fyrir tæknina

Erfiðast við flutningana er hins vegar fjarlægðin frá fjölskyldunni, einkum elstu dótturinni sem var að byrja í framhaldsskóla.

„Stærsta áskorunin er að vera svona langt frá elsta barninu mínu en við reynum að hafa augun opin fyrir að koma henni hingað um helgar og þegar færi gefst. Fjölskyldan mín er mjög náin sem gerði mér aðeins erfiðara fyrir við að flytja. Ég á tvær systur sem báðar eiga tvö börn og þau eru farin að fjölga sér líka og foreldra fyrir sunnan auk dótturinnar.

Ég þakka því Guði fyrir tæknivæðinguna, að við skulum hafa myndsímtöl. Ég hringi nánast daglega í foreldrana, systurnar eða dótturina. Aðra mínusa veit ég ekki um.“

Reiknaði aftur og aftur

„Ég hugsaði mig margoft um og ég veit ekki hvað ég settist oft niður og reiknaði, hvort þetta væri sniðugt fjárhagslega og svo framvegis. Niðurstaðan var alltaf sú sama, að það væri betri kostur að flytja hingað. Fjölskyldan er bara eitt flug í burtu, jafnvel þótt flugið geti verið dýrt.

Það er margt sem freistar í bænum. Að fara og fá sér Hlölla, í bíó eða hitt og þetta. Að flytja austur er miklu sterkari leikur fjárhagslega. Ég fékk góða vinnu og að ala upp börn í svona litlu samfélagi er lúxus. Eins og ég sagði við alla – og allir sögðu við mig: Þetta er spor í rétta átt fyrir okkur.“

Börnin dafna á Vopnafirði

Kristinn er sérlega ánægður með hversu vel börnin una sér á Vopnafirði. Hann á tvíbura, stelpur, tæplega árs gamlar.

„Litlu stelpurnar sofa meira á daginn. Fyrir sunnan sváfu þær í 30-60 mínútur en hér í 2-3 tíma í einu. Þær eru í vagninum fyrir utan húsið á daginn með sjávarniðinn í eyrunum.“

Einnig á hann tólf ára gamla stelpur og tíu ára gamlan son. „Þau eru í skólanum til klukkan tvö og þá taka oftast við fótboltaæfingar. Elsta stelpan er líka í blaki. Það er mjög virkt íþróttastarf hér þannig að yfirleitt eru þau gjörsamlega útkeyrð þegar þau koma heim.

Félagslega umhverfið hér er mjög sterkt. Krakkarnir komast ekkert upp með það að hanga heima og gera ekki neitt. Það er hending ef stelpan er heima. Það þekkist lítið fyrir sunnan að krakkar séu að koma saman í hóp til að leika sér, yfirleitt eru bara 2-3 heima hjá einum en hér fara þau út nánast á hverju einasta kvöldi að skólalóðinni til að leika sér með öðrum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar