„Ég vildi að lagið gerði gagn“

„Lagið kom til mín rétt fyrir síðustu jól, svo skömmu að það tók því ekki að setja það í loftið þá,“ segir tónlistarmaðurinn og bóndinn Svavar Pétur Eysteinsson, betur þekktur sem Prins Póló, en hann ásamt hljómsveitinni Gosum gáfu UNICEF lagið Jólakveðja í verkefnið þeirra Sannar gjafir.



Sannar gjafir er verkefni sem UNICEF stendur að til að afla lífsnauðsynlegra hjálpargagna fyrir bágstödd börn. Gjöfunum sem þú kaupir í vefverslun UNICEF er dreift til barna og fjölskyldna þeirra í samfélögum þar sem þörfin er mest.

Liður í þessu átaki er lagið Jólakveðja, sem Prins Póló gaf út ásamt vinum sínum í Gosum, en Gosar héldu einmitt eftirminnilega tónleika í Havarí á Karlsstöðum í október. Lagið er gjöf frá honum til UNICEF.

Sannar gjafir UNICEF eru keyptar í nafni þess sem þig langar að gleðja. Þú færð fallegt gjafabréf með ljósmynd og lýsingu á gjöfinni og lætur viðkomandi fá bréfið. Hjálpargögnin sjálf eru hins vegar send úr birgðastöð UNICEF til barna í neyð.



Þurfum ekki að missa vitið í Smáralindinni

Eftir að hafa pakkað nánst fullbúnu jólalagi niður í skúffu rétt fyrir síðustu jól ákvað Svavar Pétur að dusta af því rykið þegar hann fékk góða gesti í heimsókn til sín á Karlsstaði í haust, þegar þeir Snorri Helgason, Valdimar Guðmundsson, Teitur Magnússon héldu tónleika í Havarí.

„Ég dró þá með mér í skúrinn og þeir ljáðu mér hæfileika sína og við tókum lagið upp. Þegar það var svo tilbúið fór ég að hugsa hvað ég ætti að gera við það, en segja má að það búi yfir andkapitalískum blæ og vildi að lagið gerði gagn í stað þess að ég fengi af því einhver stefgjöld. Ég hafði því samband við UNICEF, þau stukku á það og settu lagið inn í verkefnið Sannar gjafir,“ segir Svavar Pétur.

Til þess að spila lagið Jólakveðja þarf að fara inn á síðuna sannargjafir.is og með því móti safnast fé fyrir UNICEF. „Þau fá líka stefgjöldin fyrir lagið, en ekki síður styrk með traffíkinni sem verður á síðunni þeirra, en þar er hægt að kaupa jólagjafirnar á einu bretti – en ættingjar og vinir fá þá jólakort frá þér en gjöfin fer sjálf til þeirra sem eiga um sárt að binda og hafa virkilega þörf fyrir hana.“

Hægt er að velja um margs konar hjálpargögn í öllum verðflokkum sem öll eiga það sameiginlegt að bæta líf barna um víða veröld.

„Mér líður alveg frábærlega að þetta skyldi takast svona vel, en þau hjá UNICEF segja að það sé brjáluð umferð á síðunni. Um þetta snúast jólin, kærleika til hvers annars, við þurfum ekki að missa vitið í Smáralindinni eða grilla Visakortið.“

Hér má hlusta á lagið og kynna sér verkefnið Sannar gjafir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar