![](/images/stories/news/2016/sfk_sjukralidahjol.jpg)
Einn göngutúr dugði til að safna fyrir hjóli fyrir hjúkrunardeildina
Tveir sjúkraliðar af hjúkrunardeild HSA á Seyðisfirði söfnuðu nýverið fyrir reiðhjóli til afnota fyrir vistmenn deildarinnar og aðstandendur þeirra.
Um er að ræða eins konar „Kristjaníuhjól“ en það eru reiðhjól með kassa framan á fyrir farþega. Hjólið er rafdrifið þannig auðveldara er að stíga það.
Stefanía Stefánsdóttir hafði löngum haft augastað á slíkum hjólum og þegar hún heyrði af því að byrjað væri að flytja þau inn til Íslands fylgdi hún áhuganum eftir.
Ásamt Ragnhildi Billu Árnadóttur fór hún út í bæ og bankaði upp á hjá fyrirtækjum til að safna styrkjum til kaupa á hjólinu sem kostar um 900 þúsund. Á spjaldtölvu höfðu þær myndir og kynningarefni frá innflytjandanum.
Tæpum tveimur tímum síðar höfðu þær safnað nógu hárri upphæð til kaupa á hjólinu.
Hjólið er hið fyrsta sinnar tegundar á Austurlandi og var afhent deildinni í lok maí. Það hefur vakið mikla lukku meðal vistmanna á deildinni sem jafnan koma inn með bros á vör að loknum hjólatúr.
Aðstandendur vistmanna geta fengið hjólið lánað en fyrst þarf að fara á námskeið hjá starfsmönnum deildarinnar og kallast eftir það „Hjólavinir“.
Stefanía á hjólinu og Ragnhildur Billa í farþegasætinu. Mynd: Úr einkasafni