Eins og kviknað sé í himninum aftan við Súlurnar

Hópur nema á lokaári í myndlistardeild Listaháskóla Íslands hefur dvalið á Stöðvarfirði síðan í byrjun síðustu viku með vinnuaðstöðu í Sköpunarmiðstöðinni. Nemandi úr hópnum segir ánægjulegt að breyta um umhverfi og fara í hlýjan faðm fjarðarins. Sýning á vinnu þeirra verður haldin í miðstöðinni á morgun.

„Það er búið að vera mjög huggulegt að dvelja hér. Ég gleymdi reyndar mannbroddunum en keypti nýja hér til að detta ekki aftur.

Við erum ekki í neinni einangrun hér en fáum gott tækifæri til að kjarna okkur og vera í núinu en ekki þessum stöðuga ys og þys. Ég talaði við vertinn á Söxu um faðminn sem maður kemur í, umkringdur fjöllum. Það er einhvern vegin eins og að fara undir teppi, maður verður svo öruggur og mér finnst það gott,“ segir Áróra Bergsdóttir, einn nemendanna fjórtán.

Þau hafa dvalist í þremur húsum í bænum en verið með vinnuaðstöðu og bækistöðvar að öðru leyti í Sköpunarmiðstöðinni. „Aðstaðan sem við höfum í Sköpunarmiðstöðinni er ekki ósvipuð þeirri sem við höfum í skólanum. Hér er mikið af góðum tækjum en það er líka gott að vera ekki með allt sem maður er vanur því það er skemmtilegt að prófa sig áfram með annað,“ segir Áróra.

Innblástur úr firðinum

Stöðvarfjörðurinn hefur veitt listnemunum rækilegan innblástur við listsköpunina. Á vinnuborði Áróru er að sjá mynd þar sem greina má Súlurnar, sem blasa við hinu megin fjarðarins og marglitan himininn að baki þeim.

„Það hefur verið svo gaman að fylgjast með þeim. Það er eins og kviknað sé í himninum á bakvið Súlurnar því sólin kemst ekki upp fyrir þær.

Sumir hafa unnið hér með hugmyndir sem þeir komu með en mér finnst best að leyfa öllum upplýsingunum í kringum mið að síast inn, þá verður eitthvað til. Ég þarf alltaf að hafa 1000 hluti í gangi í einu til að halda spennunni. Ég er líka að gera ramma úr pappamassa og plexígler til að ramma inn texta.“

Afi og amma á Eskifirði

Áróra er ekki ókunnug Austfjörðum því afi hennar og amma búa á Eskifirði. „Afi minn, Guðjón Valur Björnsson, var aðstoðarskólastjóri. Hann er frá Seyðisfirði en fljótlega eftir að hann og amma kynntust fluttu þau á Eskifjörð og byggðu hús í Bleiksárhlíð.

Amma, Auður Valdimarsdóttir, vann á bókasafninu í skólanum. Við fjölskyldan höfum komið eins oft og við höfum getað austur. Ég var mikill bókaormur og fékk mikið að vera hjá ömmu á safninu. Mér finnst mjög gott að vera á Eskifirði – sem og hér.“

Áróra segir listnemana einnig hafa lagt sig fram um að tengjast Stöðfirðingum á meðan dvölinni hefur staðið. „Við höfum gert það sem við höfum getað, við fjölmenntum á Söxu til að horfa á handboltalandsliðið til dæmis. Við vonumst líka til að fólkið í bænum komi á sýninguna okkar.“

Sýningin verður í Sköpunarmiðstöðinni á morgun, föstudaginn 27. janúar, frá klukkan 14-18.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.