„Eins og par sem hættir saman en ákveður að vera áfram vinir“

„Þetta er draumalengd og draumafjöldi á þætti eftir að hafa verið með rúmlega þriggja klukkustunda þátt alla virka morgna,“ segir útvarpsmaðurinn Andri Freyr Viðarsson sem er nýfarinn af stað með vikulegan þátt á Rás 2.



Þátturinn „Talandi um það“ verður á dagskrá klukkan þrjú á sunnudögum í vetur, en þar fær Andri til sín áhugaverða viðmælendur. „Ég er ekki að fara yfir ævisögu fólks, heldur eitthvað ákveðið augnablik eða aðstæður sem það hefur gengið í gegn um og við spjöllum um það í klukkustund,“ segir Andri.

Andri segir þáttinn eðlilegt framhald af sínu starfi á útvarpsstöðinni. „Virkir morgnar hættu, en Rás2 vildi ekki sleppa mér og ekki ég þeim – við vildum ekki hætta saman. Við erum svona eins og par sem hættir saman en ákveður að vera vinir áfram.“

Þrír þættir eru búnir og aðspurður hvernig hann velji inn viðmælendur segir Andri; „Það er nú eins með þetta og allt sem ég hef gert, ég vel bara það sem mér finnst áhugavert sjálfum, eitthvað sem mig hefur langað að spyrja að og ræða lengi. Ég bara finn punkt og fókusera á hann og er komin með góðan lista og nú er bara að sauma að viðmælendum,“ segir Andri.

Í fyrsta þætti ræddi Andri við Önnu Kristjánsdóttur um síðasta daginn hennar í vinnunni sem Kristján og þá breytingu sem kom í kjölfarið. Í öðrum þættinum við mann sem festist í heimi tölvuleikja í tvö ár og í þeim þriðja við tvær konur sem báðar voru fullfrískar og lentu svo í því að festast í hjólastól.

Í þættinum næsta sunnudag verður Rögnvaldur Bragi gestur Andra, en hann ætlar að segja honum frá því hvernig var að standa að pönktónleikum á Húsavík fyrir tíma veraldarvefsins.

„Viðtökurnar hafa verið fínar, allavega það sem ég hef heyrt frá kollegum sem telur sig vera fagfólk í bransanum. Það er nú samt þannig að neikvæðu raddirnar eru yfirleitt hærri og fyrst ég er ekki farinn að heyra þær ennþá er ég líklega að gera eitthvað rétt. Ég er reyndar vanur þeim og nærist á þeim,“ segir Andri að lokum.

Hér má hlusta á þá þætti sem búnir eru. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar