Einstök tilfinning að finna hve mikið er af góðu fólki í heiminum
Í bílskúrnum að Hammersminni 10 á Djúpavogi situr Jón Friðrik Sigurðsson í Manchester United bolnum sínum og vinnur minjagripi fyrir gesti staðarins. Skúrinn prýða líka ýmsir munir sem ánægðir gestir skúrsins hafa sent Jóni til að endurgjalda honum hlýjar móttökur.„Það gefur mér mikið að hitta allt þetta góða fólk sem hingað hefur komið. Það er tilfinning að finna hvað mikið er af góðu fólki í heiminum.
Það sendir mér þetta og hitt sem ég bið ekkert um. Þakklætið frá mér til baka er mikið en þetta gefur mér líka púst til að halda áfram,“ segir Jón Friðrik í þættinum Að Austan á sjónvarpsstöðinni N4.
Jón Friðrik er uppalinn Siglfirðingur en hefur búið á Djúpavogi í áratugi, þrátt fyrir að hafa aðeins ætlað að vera þar fyrst í tvo mánuði. Hann var til sjós en slasaðist alvarlega við vinnu sína árið 2005.
Í sumar verða tíu ár liðin frá því hann fór að opna bílskúrinn sinn og selja þar minjagripi sem hann hefur unnið. „Það var betra að standa upp og gera eitthvað heldur en liggja í rúminu og þiggja bætur,“ segir hann.
Jón Friðrik vinnur í hreindýrshorn, tré og steina. „Ég vinn helst úr hornum sem ég finn úti í náttúrunni og steinum sem ég hef safnað í 35-40 ár. Timbrið fæ ég hingað og þangað, frá Egilsstöðum, frá fólkinu mínu á Bragðavöllum og stundum finn ég góða spýtu þegar ég geng fjörurnar. Það var eins og eitthvað myndi ske því ég var alltaf að safna einhverju.“