Eistnaflug 2019: Upplifun er þemað

Undirbúningshópur þungarokkshátíðarinnar Eistnaflugs kom saman í vinnustofu í Neskaupstað síðastliðna helgi til þess að stilla saman strengi fyrir hátíð sumarsins. Hópurinn lofar miklu partýi í sumar. 
„Undirbúningshópur Eistnaflugs er alltaf að stækka og við erum með ótrúlega sterkan hóp fólks sem hefur hjarta fyrir hátíðinni og er tilbúið að gefa af sér til þess að gera hátíðina frábæra,“ segir Helga Dóra Jóhannesdóttir, stjórnarformaður Eistnaflugs, en hátíðin verður haldin dagana 10.-13. júlí.

Eins og áður hefur komið fram verða töluverðar breytingar á Eistnaflugi í sumar, en segja má að hátíðin hverfi aftur til upprunans þegar hún verður færð úr íþróttahúsinu í Egilsbúð, sem hýsti hana frá því hún var sett á laggirnar árið 2005 og allt til 2014.

„Árið 2014 var ljóst að hátíðargestir sprengdu Egilsbúð, hátíðin hafði stækkað jafnt og þétt og tekin var ákvörðun um að flytja hana í íþróttahúsið, möguleikarnir þar voru frábærir, stærra svið sem þýddi stærri hljómsveitir og fleira fólk gat komið. Fyrstu tvö árin í íþróttahúsinu gengu mjög vel og væntingar okkar til 2017 voru miklar. Við lentum hins vegar í fjárhagserfiðleikum eftir þá hátíð, höfðum spennt bogann of hátt og færri komu á hátiðina heldur en ráð var gert fyrir. Offramboð á tónleikum og hátíðum gerði það að verkum að fleiri viðburðir börðust í bökkum.

Þetta var auðvitað mikið áfall en við tókum ákvörðun um að sjá hvað við gætum gert til þess að rétta úr kútnum. Við eigum mörgum mikið að þakka fyrir það að Eistnaflug 2018 varð að veruleika. SÚN, Sparisjóður Austurlands, Air Iceland Connect og sveitarfélagið Fjarðabyggð hafa staðið mjög vel við bakið á okkur. Skuldarar lækkuðu kröfur og hljómsveitir gáfu eftir þóknun sína og ég held að ég geti ekki komið í orð hvað við erum þakklát fyrir þann stuðning sem við höfum fengið.

Úr varð að við gátum haldið hátíð 2018, vorum aftur í íþróttahúsinu en minnkuðum umgjörðina og sú hátíð kom vel út. Svipaður gestafjöldi og árið áður en ekkert tap. Róðurinn var samt þungur áfram útaf eldri skuldum og við settum hausinn í bleyti. Spurningin var: Er Eistnaflugs ævintýrið búið? Við vorum ekki alveg til í það, heldur spýttum í lófana og tókum þá ákvörðun að betra væri að hafa uppselda hátið í Egilsbúið í ár en að leggja aftur í íþróttahúsið.Óhætt er að segja að það sé kominn fiðringur í okkur að halda aftur heitt og sveitt Eistnaflug,“ segir Helga Dóra og bætir því við að í ár hefur Uppbyggingasjóður Austurlands styrkt hátíðina raunsnarlega og einnig hafa borist styrkir frá Rannís, Alcoa og Sparisjóðnum.

Hafa skipst á að langa að gefast upp

Helga Dóra segir að aðkoma að uppbyggingu hátíðarinnar hafi oft á tíðum tekið á. „Tíminn frá 2017 hefur verið mjög erfiður á köflum og við höfum skipst á að langa til að gefast upp. En það er alltaf einhver innan hópsins sem hefur trú á því að þetta eigi allt eftir að verða frábært og áfram örkum við og horfum á jákvæðu hlutina.

Við lofum miklu partýi í sumar og í undirbúningnum er orðið „upplifun“ þemað. Eistnaflug er upplifun allt frá því þú leggur af stað að heiman, hvort sem þú kemur akandi eða fljúgandi. Kærleikurinn á hátíðinni er upplifun. Síðasta sumar settum við saman „kærleikssveit“ fólks í merktum bolum sem bauð knús og stóð fyrir litlum viðburðum út um allan bæ. Hópurinn fór líka upp á tjaldsvæði með súkkulaðiköku og við gáfum ávexti í lok tónleika svo fólk hefði smá bensín til að koma sér í tjöldin sín. Lítið sem ekkert hefur verið um „vesen“ á þessum árum sem Eistnaflug hefur verið haldið. Einkunnarorðin „Það er bannað að vera fáviti“ og „skemmtum okkur fallega“ óma og almenn samstaða er um að standa við þessi orð. Þungarokkarar eru almennt rólegheita fólk á milli flösuþeytinga,“ segir Helga Dóra.

Íslendingar seinir að kaupa miða

Helga Dóra segir miðasöluna fara ágætlega af stað. „Íslendingar eru þó sér á báti í miðakaupum, ganga ekki frá málunum fyrr en rétt fyrir viðburðinn, sem kemur sér illa fyrir þá sem viðburðina halda og þurfa að stofna til skulda til að standa straum af þessum fyrirfram kostnaði. Við erum með okkar miðasölu hjá tix.is og við tökum ekkert út fyrr en við erum 100% örugg.“

Helga Dóra segir einnig að alltaf sé pláss fyrir fleiri hendur til að hjálpa, bæði við undirbúning og á hátíðinni sjálfri. „Við hérna í Austur deildinni erum að vinna í að fá stuðningsaðila. Það er hægt að hjálpa okkur allskonar, O. Johnson & Kaaber gaf okkur mat í fyrra til að fæða hljómsveitir og starfsfólk, við fengum egg frá Stjörnueggjum, Bananar studdu okkur líka og Síldarvinnslan gaf okkur fisk. Við erum þakklát fyrir allan stuðning. Ég veit líka um einstaklinga sem keyptu miða í fyrra án þess að ætla á hátíðina.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar