Ekkert heilagt nema jólagrauturinn með karamellusósunni

Jólahátíðin snýst um hefðir, bæði nú og áður fyrr. Þau Bergljót Jörgensdóttir og Hrafnkell Björgvinsson segja eina hefð alveg ófrávíkjanlega í þeirra jólahaldi, en það er grauturinn með karamellusósunni. Viðtal við þau heiðurshjónin birtist í jólablaði Austurgluggans á dögunum. 



Bergljót og Hrafnkell eru bæði fædd og uppalin í Fljótsdal, hún frá Víðivöllum fremri og hann frá Hrafnkelsstöðum.

„Við höfum þekkst frá blautu barnsbeini, það eru ekki nema svona átta kílómetrar milli bæjanna. Vorum lengi bændur í Fljótsdal eftir að við fórum að búa, bjuggum svo lengi á Reyðarfirði og erum núna komin í Egilsstaði. Við höfum verið gift í 60 ár á næsta ári en við giftum okkur á gamlársdag árið 1957,“ segir Hrafnkell.

 



Aðventan hófst í reykhúsinu

Bergljót og Hrafnkell eru spurð um æskujólin. „Heimilið á Hrafnkelsstöðum var stórt en þar voru iðulega um tuttugu manns – fjórar og upp í fimm fjölskyldur sem bjuggu í sama húsinu. Amma mín og afi voru húsbændur og þetta voru þeirra börn, tengdabörn og barnabörn, sem samtals myndaði þetta fjölmenna samfélag. Hver fjölskylda hafði eitt herbergi til afnota en allir notuðu sömu eldavélina. Þetta gekk alveg merkilega vel en gamla konan hélt heimilinu saman með ljúfmennskunni en hún var svo yndisleg manneskja að það datt engum annað í hug en að gera henni til geðs,“ segir Hrafnkell.

Hann segir að á Hrafnkelsstöðum hafi það verið hefð að fara í reykhúsið 1. desember og skoða kjötið. „Þá voru útbúnir sperðlar úr kjöti sem svo voru reyktir. Einnig voru skankarnir reyktir,“ segir Hrafnkell og Bergljót tekur undir: „Já, jólin heima hjá mér byrjuðu á aðventunni þegar reykta kjötið var skoðað.“

Hrafnkell segir það einnig vera eftirminnilega hefð í jólaundirbúningnum þegar rjúpurnar voru reyttar. „Þá komu allir saman í eldhúsinu. Karlmennirnir reyttu rjúpurnar en kvenfólkið plokkaði það fínasta sem eftir varð af fiðrinu og að endingu var rjúpunni brugðið yfir lampaglas til þess að brenna það allra síðasta. Segja má að jólahaldið hafi formlega hafist með þessu,“ segir Hrafnkell.


Jólamaturinn byggðist á því sem búið gaf af sér

„Jólamaturinn byggðist á því sem búið gaf af sér, á haustin var saltað og slátur unnið. Við náðum einnig í rjúpur og það var mikið af henni í þá daga. Rjúpur ásamt hangikjötinu, það var jólamaturinn,“ segir Hrafnkell.

Bergljót segir að á Víðivöllum fremri hafi sá siður alltaf verið hafður á að slátra kind til þess að geta boðið upp á nýmeti um jól. Einnig hafi alltaf verið nóg af mjólk og rjóma til heimilisins. „Það var nýnæmi að fá ávexti um jól, ég man ennþá eplalyktina,“ segir Bergljót dreymin.

Bergljót segir að alltaf hafi verið reynt að sjá til þess að mannskapurinn fengi ný föt fyrir jólin, þá auðvitað heimaprjónuð eða -saumuð. En ekki hafi verið gefnar jólagjafir eða send jólakort, slíkt hafi hún fyrst séð kringum fermingu.

„Það tíðkaðist heldur ekki í mínu ungdæmi en við reyndum alltaf að hafa jólatré, heimafengið. Það var birkiskógur í landareign Hrafnkelsstaða og farið var í hann og sótt falleg birkihrísla sem gjarnan var klædd var með sortulyngi og sett á lifandi kertaljós. Útbjuggnir voru jólapokar úr kreppappír og í þá gjarnan settar smákökur eða sælgæti. Þetta þótti rosalega flott og dönsuðu allir kringum jólatréð og sungu en það var mikil músík á Hrafnkelsstöðum. Hátíðahöldin hófust klukkan sex á aðfangadag og þá reyndu menn að vera komnir inn frá gegningunum,“ segir Hrafnkell.


Heimatilbúið síróp í karamellusósunni

Fyrstu jólin sín saman voru Bergljót og Hrafnkell á æskuheimili Bergljótar en þangað flutti Hrafnkell og stofnuðu þau heimili ásamt foreldrum Bergljótar. Þau segja frá því að enn hafi ekki verið komið rafmagn í sveitina þegar þau hófu búskap. Hrafnkell segir að í gegnum tíðina hafi ekkert verið heilagt varðandi jólamatinn, nema eitt – jólagrautinn sem kominn er frá fjölskyldu Bergljótar.

„Við höfum alltaf borðað grjónagraut með karamellusósu, eða „risalamande“ í eftirrétt. Það er kannski svolítið undarlegt að borða hann eftir svo þunga kjötmáltíð en það hefur aldrei annað verið tekið í mál af drengjunum okkar þremur og þeirra fjölskyldum. Yfirleitt settum við möndlu í grautinn og sérstök möndlugjöf var til þess sem hana hreppti.“

Bergljót segir frá því að hún hafi gegnum tíðina yfirleitt soðið sjálf sírópið sem í karamellusósuna fer. „Það verður eitthvað öðruvísi á bragðið en þetta keypta. Bróðir minn skildi til dæmis aldrei af hverju hann gæti ekki gert sósuna eins og mamma gerði hana en það var bara af því hann var með aðkeypt síróp, það er einhver annar keimur af því heimatilbúna.“

Undir lok viðtalsins berst talið að félagslífi á aðventunni. Hjónin segjast vera heimakær og líði best heima í félagsskap hvors annars. Ekki var annað hægt en að spyrja þau ráða um heilræði til ungs fólks í sambúð eða hjónabandi.

„Það verður að ríkja trúnaður, það er númer eitt, tvö og þrjú. Einnig tillitssemi en þetta held ég að séu tveir meginþættirnir,“ segir Hrafnkell og Bergljót tekur undir: „Svo er mikilvægt að hjónin vinni saman að því sem þarf að gera á heimilinu.“

Er ungt fólk í dag kannski að gefast of fljótt upp ef vandamál koma upp í sambandinu? „Kannski er það ekki nógu duglegt við að tala saman en það er eitt af frumskilyrðunum, að geta talað saman í trúnaði,“ segir Hrafnkell.



Jólagrauturinn og karamellusósan hennar Bergljótar

Grautargrjón eru soðin mjög vel í vatni og með örlitlu salti. Þegar grjónin eru orðin vel soðin og allt vatn farið af þeim er nýmjólk bætt við. Einnig smjörklípu og rjómalögg í lokin eða meira af nýmjólk. Grauturinn á að vera blautur en mjög þykkur.

Í karamellusósuna fer síróp og þeyttur rjómi og er því blandað til helminga. Bergljót bræðir sykur á pönnu og þegar hann er orðinn brúnn setur hún örlítið vatn á pönnuna til þess að sporna við því að hann harðni þegar hann kólnar. Þegar sírópið er orðið kalt er rjómanum bætt saman við.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar