Ekkert minna en galið að hafa verið látinn hlaupa um með spelkur og hækjur

Arnar Ágúst Klemensson á Seyðisfirði fæddist með klofinn hrygg og hefur notað hjólastól lungann af sínu lífi. Hann vakti um tíma athygli fyrir framúrskarandi árangur í íþróttum en hann hefur líka alla tíð barist fyrir réttindum fatlaðs fólks.

Arnar er fæddur á Seyðisfirði árið 1970. Fyrstu fimmtán ár lífsins varð hann að gera sér að góðu að nota spelkur og hækjur.

„Þessi fyrstu ár tók ég bara þátt í öllu eins og aðrir án þess að hugsa mikið út í hlutina. Ég var farinn út að leika snemma dags og eins og aðrir krakkar og ungmenni á þeim tíma vorum við bara úti að leika okkur frá morgni til kvölds.

Ég tók þátt í hinum og þessum íþróttunum eins vel og ég gat og skipti engu hvað það var. En auðvitað háði mér að skottast um með spelkur og hækjur miðað við aðra ófatlaða. Það má þó vera að þetta allt hafi kveikt þennan íþróttaáhuga minn sem entist nokkuð lengi.“

Arnar segist hafa prófað flestar þær íþróttir sem honum buðust en fann sig loks í hjólastólaralli. Hann helgaði sig því og það skilaði því að hann tók þátt í Ólympíuleikunum árið 1988.

Eftir að hann hætti keppni nýtti hann færnina til að vekja athygli á stöðu fatlaðs fólks. Árið 1991 fór hann yfir Fjarðarheiðina á hjólastól og aftur tíu árum síðar í tilefni Landsmóts UMFÍ á Egilsstöðum. Þremur árum síðar fór hann ásamt félaga sínum yfir Hellisheiði, milli Reykjavíkur og Hveragerðis, til styrktar Barnaspítala Hringsins.

Stærsti sigurinn að hætta að drekka


En þótt það hafi verið stór stund að kynnast betri aðstæðum í Seúl og ganga inn á Ólympíuleikvanginn þar, minning sem enn lætur Arnar fá gæsahúð, er annar áfangi í lífinu sem hann telur enn stærri sigur. „Það er dagurinn sem ég lagði áfengið á hilluna en síðan eru liðin 26 ár og ekki nokkur spurning að þetta var mikilvægasta andartakið hingað til á mínum lífsferli.“

Arnar glímir einnig við störuflogaveiki og hann segir hreinskilin orð frá lækni sínum um að áfengið gerði illt verra hafa átt stóran þátt í að hann setti tappann í flöskuna. Hann segist hafa staðið allar freistingar um að opna hana aftur.

„Fyrir nokkrum árum létust þrír nánir ættingjar mínir með skömmu millibili. Ég fór töluvert langt niður og íhugaði alvarlega að opna flösku og þegar mér var boðið í matarveislu þar sem borðið var drekkhlaðið af áfengi og allir aðrir en ég að fá sér. En ég hélt út og geri enn og stór partur af þessu er að ég hræðist mikið hvernig ég gæti komið fram við hundinn minn ef ég fer að drekka aftur. Ég get alveg verið fljótur upp og erfiður á slíkum stundum en ég vil ekki gera hundinum mínum það, sem er sannarlega minn besti vinur, að upplifa eitthvað miður gott í minni návist eftir áfengisneyslu.“

Hundarnir nokkrum sinnum bjargað lífi hans


Hundurinn Sproti, svartur labrador, skiptir Arnar miklu máli sem og fleiri hundar sem hann hefur átt. Ekki er langt síðan Sproti lét nágranna Arnars á Seyðisfirði vita að eigandi hans væri í vandræðum er hann vakti þá með linnulausu gelti.

„Ég féll við hér heima og datt illa á höfuðið hér í stofunni. Ég veit ekki hvað lengi ég var úti en ég vaknaði alblóðugur í kjölfarið og gat leitað mér hjálpar. En svo kom í ljós að nágrannarnir mínir báðu megin urðu varir við mikið gelt í talsverðan tíma án þess þó að átta sig á hvað hefði gerst. Sproti er líka mjög óvanur því að gelta mikið og hvað þá svona lengi svo það urðu allir varir við þetta. Ég hef einmitt komið þeim skilaboðum til þeirra að vinsamlega hringja eftir aðstoð ef hann fer að gelta svona á nýjan leik.Bæði hann og aðrir hundar sem ég hef átt gegnum tíðina hafa sannarlega veitt mér lífsbjörg þegar ég dett út eða ligg flatur einhvers staðar. Ég skulda þeim lífgjöf nokkrum sinnum.“

Illu heilli, ekki löngu eftir að viðtalið var tekið, lét Sproti þessari jarðvist sinni lokið sem var áfall mikið fyrir Arnar enda miklir vinir og hvergi fór Arnar nánast án vinar síns.

Þarf að hækka röddina í baráttunni fyrir betra lífi


Þegar hann hugsar aftur til baka til æskunnar segir hann að það hafi verið „ekkert minna en galið“ að láta hann hlaupa um með spelkur og hækjur. Sem betur fer hafi ýmislegt breyst til batnaðar en þjónustan við fólk með fötlun sé almennt ekki mjög góð á Austurlandi.

Þannig býr Arnar býr i dag í tæplega 50 fermetra íbúð á Seyðisfirði sem upphaflega var gerð undir eldri borgara, sem eru hinir íbúarnir í fjölbýlishúsinu. Hann segir heimsóknir heilbrigðisstarfsfólks fátíðar og ýmsa aðra þjónustu sem hann eigi rétt á ýmis vanta eða vera ekki nógu vel veitta.

Í dag sem fyrr lætur hann óhikað í sér heyra þegar honum þykir ekki nægilega vel staðið að þjónustu við fólk með fötlun. „Ég get auðveldlega látið í mér heyra og oftar en ekki er meira mark á mér tekið þegar ég hækka röddina. Það er æði margt miður sem við þurfum enn þann dag í dag að sætta okkur við sem fatlaðir einstaklingar og ef enginn segir neitt þá gerist ekkert í þeim málum. Ég er ekkert að fara að hætta að berjast fyrir betra lífi fyrir þau sem þurfa hjólastól til að lifa lífinu.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar