Ekki alveg búið að loka á umsóknir um starf sveitarstjóra
Umsóknarfrestur um starf sveitarstjóra á Borgarfirði Eystri virðist enn ekki vera runnin út. Jakob Sigurðsson oddviti hreppstjórnar sagði í samtali við Austurgluggann í morgun að ekki væri búið að fjalla um umsóknir þær sem hafa nú þegar borist á fundi hreppstjórnar. “Það er kannski ekki alveg búið að loka á það.” Sagði Jakob í samtali við blaðamann í morgun, en hann hefur neitað að gefa upp nöfn umsækjanda á þeim forsendum að umsóknarfrestur sé ekki runninn út.
Staða sveitarstjóra á Borgarfirði var auglýst nú fyrir nokkrum vikum, en í auglýsingunni kemur ekkert fram um hvenær umsóknarfrestur rennur út. Blaðamaður spurði hvers vegna þannig væri staðið að málum og hvort það væri til þess að hægt væri að loka fyrir umsóknir þegar “rétta” umsóknin bærist. “Það var nú ekki hugmyndin. Við auglýstum þetta heimavið fyrst. Þetta var nú bara ákvörðun sem var tekin. Ég var í sambandi við Samband Sveitarfélaga vegna auglýsingarinnar og þar var ekki gerð athugasemd við þetta atriði.”
En finnst oddvitanum þessi stjórnsýsla vera til fyrirmyndar? “Það má deila um það.” sagði Jakob.
Jakob segir að á fundi næsta mánudag verði tekin ákvörðun um hvenær umsóknarfrestur rynni út. Því er ekki hægt að ætla annað en að enn um sinn sé opið fyrir umsóknir og því ástæða til að hvetja áhugasama um að sækja um starf sveitarstjóra á Borgarfirði.