„Ekki til í að hætta öllu þótt við séum orðin eldri borgarar“

Eldri borgarar í Fjarðabyggð og á Djúpavogi leggja á miðvikudag af stað í áheitagöngu sem farin verður frá Dalatanga í norðri til Þvottárskriða í suðri. Einn forsvarsmanna göngunnar segir hana bæði farna í heilsueflingarskyni og til að láta gott af sér leiða.

„Björn Hafþór Guðmundsson langaði til að labba alla Fjarðabyggð í sumar og fór að hugsa um að fá aðra eldri borgara á Stöðvarfirði með sér. Við héldum áfram að vinna út frá því, að fara í styrktargöngu og fá aðra eldri borgara með okkur.

Við vildum gera þetta sýnilegt, setja gott fordæmi og efla samstöðu milli eldri borgara hér. Við erum ekki tilbúin að hætta öllu og setjast í hægindastólinn okkar þótt við séum orðum þetta fullorðin.“

Þetta segir Hlíf Herbjörnsdóttir, eiginkona Björns Hafþórs og formaður Jaspis, félags eldri borgara á Stöðvarfirði, sem ásamt manni sínum hefur haft veg og vanda að undirbúningi göngunnar miklu.

Rúmir 350 km

Gangan hefst á planinu við kirkjuna á Reyðarfirði klukkan tíu á miðvikudag, 1. maí, og verður þá gengið af stað áleiðis næstu staða. Alls er gert ráð fyrir að ganga að minnsta kosti 350 km á næstu mánuðum og vikum, en farnir verða gömlu vegirnir svo sem yfir Oddsskarð og fyrir Vattanesskriður. Þessu á að vera lokið í byrjun júlí.

Hlíf og Björn Hafþór hafa fengið félög eldri borgara í Fjarðabyggð og Djúpavogshreppi í lið með sér og skipaðir hafa verið göngustjórar í hverjum þéttbýliskjarnar til að fylgja göngunni eftir og skipuleggja hvenær verði gengið.

Hlíf er afar ánægð með viðtökurnar sem verkefnið hefur gengið. „Það er dásamlegt að finna samstöðuna og hvað allir eru glaðir að taka þátt. Gangan verður félagslega góð fyrir okkur til að kynnast, en þetta er líka hreyfing og útivera auk þess sem við látum gott af okkur leiða.“

Hugað að örygginu

Gert er ráð fyrir að minnst tveir gangi í einu og þeim fylgi bíll með viðvörunarljósum. Skilyrði er að göngumenn séu orðnir 60 ára, þó er opið fyrir að yngra fólk taki þátt með einhverjum hætti, en framlag reiknast þeirra reiknast á annan hátt inn í áheitasöfnunina. Í boði eru ýmis hlutverk, en í kynningarbréfi er bent á að þeir sem ekki treysti sér til að ganga geti mögulega keyrt fylgdarbílana.

Mikil áhersla er einnig lögð á öryggismál. Göngufólk á að vera í áberandi vestum og ekki ganga í vondi skyggni. Þá er fólk hvatt til að huga frekar að umhverfis- og umferðarhljóðum „heldur en að rifja upp saman kökuuppskriftir eða upplýsingar úr gömlu markaskránni.“

Hlúa að fólki sem þarf á því að halda

Til stendur að slá upp veislu þegar gangan klárast í sumar á Mjóafirði. Ágóðinn rennur til Krabbameinsfélags Austfjarða og verður veittur með viðhöfn.

„Við viljum hlúa að fólki sem þarf virkilega á því að halda. Við vitum að það er dýrt að fá þennan vágest og höfum séð sögur af fólki sem þarf að dveljast í Reykjavík í meðferð en getur ekki haft fjölskylduna hjá sér á meðan því það er svo dýrt,“ segir Hlíf.

Nú er verið að dreifa áheitamiðum til allra heimila og fyrirtækja á svæðinu auk þess sem verið er að hafa samband við brottflutta. Nánari upplýsingar um gönguna og áheitasöfnunina má finna á Facebook undir „Enn gerum við gagn.“

Göngustjórar
Neskaupstaður: Benedikt Sigurjónsson og Magnús Jóhannsson
Eskifjörður: Jórunn Bjarnadóttir og Jón R. Óskarsson
Reyðarfjörður: Einar Þorvarðarson
Fáskrúðsfjörður: Sigurjón Hjálmarsson og Eyþór Friðbertsson
Stöðvarfjörður og Breiðdalur: Sara Jakobsdóttir, Unnur Björgvinsdóttir og Björn Hafþór Guðmundsson
Djúpivogur: Kristján Karlsson

Hlíf, til vinstri, ásamt félögum úr Jaspis. Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar