Eldhúsyfirheyrslan: Afbrigði af hlaupara uppáhald fjölskyldunnar
Áslaug Lárusdóttur er uppalin Breiðdælingur en býr nú ásamt fjölskyldu sinni í Neskaupstað. Hún er skrifstofustjóri á Náttúrustofu Austurlands. Hún er þekkt fyrir leikni sína í eldhúsinu og stórgóðar tertuveislur og því tilvalin í eldhúsyfirheyrslu sem matgæðingur vikunnar.
Fullt nafn: Áslaug Lárusdóttir
Aldur: 46
Starf: Skrifstofustjóri á Náttúrustofu Austurlands
Maki: Ari M. Benediktsson
Börn: Já við eigum samtals 5 börn og 3 barnabörn
Hvaðan ertu? Þegar stórt er spurt, ég er Breiðdælingur eða þar átti ég mína bernsku en lítið búið þar á fullorðinsárum, bjó svo á Hornafirði í samtals 13 ár.
Hvar býrðu? Í Neskaupstað síðan 2005
Mesti áhrifavaldur í matargerð? Amma Dísa. Hún var alltaf í eldhúsinu eitthvað að fást við mat og bakaði mikið. Ég eyddi löngum stundum með henni í eldhúsinu, aðallega til að smakka en líka fá að prófa.
Hver er furðulegasti réttur sem þú hefur eldað/bakað? Sennilega er ég ekkert mikið að gera furðulega hluti í eldhúsinu man að minnsta kosti ekki eftir neinu
Hvað ertu oftast beðin um að elda/baka? Ég geri skilst mér mjög góðar tertuveislur og er mjög fljót að rigga upp kaffiboði en svo er kjúklingasúpan mín alltaf ofarlega á listanum.
Hver væri titillinn á kokkabókinni þinni? Sletta af þessu og dass af hinu
Besta eldhúsráð sem þú hefur fengið? Að vera hæfilega kærulaus á mælieiningar og þora að prófa.
Þú ert með matarboð, hvaða þrem manneskjum úr mannkynssögunni myndir þú bjóða og af hverju? Og hvað myndirðu elda? Ég myndi að minnsta kosti ekki nota uppskrift. Ég veit ekki hvað ég myndi elda en ég myndi leika af fingrum fram. Ef ég mætti bara bjóða þrem þá myndu það líklega vera Díana prinsessa, Elvis Presley og Robin Williams. Ég held það yrði ekki leiðinlegt boð.
Hlustarðu á tónlist þegar þú eldar? Ef svo er hvaða og af hverju? Já eiginlega alltaf með einhverja tónlist og það fer bara eftir því í hvernig skapi ég er, oftar en ekki einhver lagalisti á Spotify sem verður fyrir valinu, undanfarið er ég þar með góðan kokteil af Ed Sheeran, Post Malone, Auður, Tínu Turner, Hr.Hnetusmjör, Nýdönsk, Helga Björns, Villa Vill og einhverjum fleirum
Hvert er leiðinlegasta eldhúsverkið? Alveg klárlega að ganga frá eftir matinn það lagast ekkert með aldrinum.
Horfirðu á matreiðsluþætti? Nei aldrei þolað matreiðsluþætti og skil ekki vinsældir þeirra.
Hver er þinn styrkleiki í eldhúsinu? Frumkvæði og að geta eldað góðan mat án þess að elta uppskrift.
En veikleiki? Gleymi yfirleitt að smakka áður en ég ber á borð en aldrei komið að sök og kann bara að elda fyrir marga.
Hver er mesta áhætta sem þú hefur tekið í matargerð? Það var svolítið stressandi að elda og bera ábyrgð á 2ja rétta máltíð fyrir 350 manna hóp. En það hef ég gert nokkrum sinnum.
Hvað er alltaf til í ísskápnum hjá þér og af hverju? Rjómi - allt betra með rjóma
Mesta afrek í eldhúsinu? Ætli það séu ekki stóru terturnar sem ég hef gert og skreytt fyrir fjölskyldu og vini, skírn, ferming, útskriftir og slíkt.
Topp þrír réttir sem þig langar að smakka áður en þú deyrð? Ég á eftir að komast að því hverjir þeir eru
Hvern viltu svo skora á í eldhúsyfirheyrslu næstu viku: Það er vinur minn og matgæðingurinn Karl Þ. Indriðason sem búsettur er á Breiðdalsvík.
Að lokum, hver er svo þín uppáhalds uppskrift sem þú vilt deila með lesendum?
Afbrigði af hlaupara
Quasadilla að hætti Áslaugar.
Þetta er nýja uppáhald fjölskyldunnar og aldrei nákvæmlega eins en nokkurnvegin svona:
Hráefni:
800 gr nautahakk
1.pk Fajita kryddblanda (Santa Maria)
Salt og pipar eftir smekk
2 dósir niðursoðnir tómatar, hakkaðir.
1 dós nýrnabaunir
1 dós svartar baunir
1 dós maísbaunir
Aðferð:
Ég nota uþb ½ haus Brokkoli ,½ haus blómkál, 2 rauðar paprikur, gulrætur og 2 rauðlaukar, hvítlaukur eftir smekk ég er oft með ½ hvítlauk.
Stundum er það bara ískápatiltekt af grænmeti og því meira því betra.
Brúna hakkið og krydda með kryddblöndunni og salt og pipar. Bæti út í dósamatnum og leyfi þessu að malla meðan ég sker niður grænmetið sem ég bæti út í jafnóðum. Látið malla í djúpri pönnu lokið lagt yfir að hluta uþb í 20 mínútur þegar allt er komið útí vökvinn að mestu uppgufaður. - jafnvel betra upphitað daginn eftir.
Borið fram með grískri jógúrt, guacamole, rifnum osti og fersku salati. Borðað í grófum tortilla vefjum.
Áslaug Lárusdóttir mætgæðingur vikunnar.
Quasadilla afbrigðið girnilega.
Myndirnar eru aðsendar