Eldhúsyfirheyrslan: „Fljótfær, les vitlaust í uppskriftir og fer línuvillt“

Matgæðingur vikunnar er Katrín Birna Viðarsdóttir. Hún býr ásamt fjölskyldu sinni í Neskaupstað þar sem hún gegnir starfi forstöðukonu í Egilsbúð. Katrín er í eldhúsyfirheyrslu vikunnar og deilir girnilegum kjúklingarétti með okkur. Tilvalin fyrir helgina. 


Fullt nafn: Katrín Birna Viðarsdóttir
Aldur: 33
Starf: Forstöðukona í Egilsbúð
Maki: Elí Helgason
Börn: Elísabet Erna 6 ára og Bjartur Kristinn 5 ára
Hvaðan ertu? Ég hef búið víða og á erfitt með að svara þessari en Stöðvarfjörður er alltaf heima.
Hvar býrðu? Ég bý í Neskaupstað
Mesti áhrifavaldur í matargerð? Klárlega hún Bogga Jóna frá Stöðvarfirði, ég elska Boggumat
Hver er furðulegasti réttur sem þú hefur eldað/bakað? Örugglega rice krispísfjallið sem ég hafði einu sinni í páskamatinn því ég kunni ekki að elda lambalæri og vildi ekki viðurkenna það.
Hvað ertu oftast beðin um að elda/baka? Þessa dagana er það hakk og spagettí en eins og kemur fram hér að ofan á ég 5 og 6 ára börn. Ég grillaði samt lax um daginn, vona að ég verði beðin um hann aftur
Hver væri titillinn á kokkabókinni þinni? Útlitið er ekki allt?
Besta eldhúsráð sem þú hefur fengið? Ganga frá jafnóðum , ekkert verra en að vera saddur og eiga eftir að ganga frá öllu
Þú ert með matarboð, hvaða þrjár manneskjur úr mannkynssögunni myndir þú bjóða og af hverju? Og hvað myndirðu elda? Þetta er erfitt. Ég er ekkert mikið fyrir að halda matarboð og sérstaklega ekki með fólki sem ég þekki ekki, svo ég myndi bara fá allar æskuvinkonur/vini öll í matarboð og bjóða uppá kjúklinganachos og spjall.
Hlustarðu á tónlist þegar þú eldar? Ef svo er hvaða og af hverju? Ég hlusta ekki mikið á tónlist en þegar ég hlusta þá set ég oft á lög frá 2000-2002 annars hlusta ég mikið á hlaðvörp þegar ég er að brasa hér heima.
Hvert er leiðinlegasta eldhúsverkið? Þrífa ofnplötur
Horfirðu á matreiðsluþætti? Einhver í uppáhaldi? Mér finnst mjög skemmtilegt að horfa á matreiðsluþætti og við dóttir mín vorum að uppgötva þætti á Netflix sem heita Nailed it og þeir lofa góðu.
En lestu matreiðslubækur? Mælirðu með einhverri? Það er svo vont að viðurkenna að maður lesi ekki bækur en nei ég les ekki matreiðslubækur en skoða uppskriftir og umræður um matargerð á internetinu
Hver er þinn styrkleiki í eldhúsinu? Ég get bakað rosalega góða skúffuköku
En veikleiki? Ég er mjög fljótfær og hvatvís og á það til að mæla hráefnin bara með auganu, lesa vitlaust uppskriftir eða fara línuvilt.
Hver er mesta áhætta sem þú hefur tekið í matargerð? Ég hef borðað sama subwaybátinn síðan ég var 12 ára en einu sinni fékk ég mér túnfiskbát.
Hvað er alltaf til í ísskápnum hjá þér og af hverju? Smjör, ostur og pepsí max.
Mesta afrek í eldhúsinu? Maðurinn minn skráði mig einu sinni sem þátttakanda í kökukeppni og ég útbjó marengstertu. Ég vann ekki en hún var mjög falleg.
Topp þrír réttir sem þig langar að smakka áður en þú deyrð? Ég er ekki mjög nýungargjörn en ég væri til í að smakka mat sem eftirtaldir elda sjálf Gordon Ramsey, Nigella Lawson og Padma Lakshimi.
Hver er svo þín uppáhalds uppskrift sem þú vilt deila með lesendum? Það er Jónu kjúlli.
Af hverju er hún í uppáhaldi? Ef þið prufið þá munuð þið skilja það
Hvernig er svo uppskriftin?

Jónukjúlli
Innihaldsefni:
-4 kjúklingabringur ( ég nota samt oft bara leggi)
-Heinz BBQ sósa (orginal) heil flaska
-Apríkósumarmelaði, heil krukka
-Smá sletta af soyja sósu ( Ég sleppi henni)
-Púðursykur eftir smekk ( Ég set c.a hálfan til einn dl)

Aðferð:
-BBQ sósa , marmelaði, soyja og púðursykur sett saman í pott, hrært og sósan útbúin.
-Kjúklingurinn settur í eldfast mót og sósunni hellt yfir
-Eldað í ofni þar til kjúklingurinn er orðinn eldaður (fer eftir stærð á bitum).
-Borið fram með salati, hrísgrjónum og hvítlauksbrauði

 

Katrín Birna Viðarsdóttir. Mynd úr einkasafni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.