Eldhúsyfirheyrslan: Lærði ung að baka vandræði!

Borgfirðingurinn Eyrún Hrefna Helgadóttir er mætgæðingur vikunnar að þessu sinni. Hún starfar á Minjasafni Austurlands og rekur kaffishúsið Fjóshornið á Egilsstöðum með manni sínum á sumrin.  Eyrún er í yfirheyrslu vikunnar. 

 

 

Fullt nafn: Eyrún Hrefna Helgadóttir  

Aldur: 31 árs.

Starf: Vinn við safnfræðslu og fleira á Minjasafni Austurlands en við maðurinn minn rekum líka kaffihúsið Fjóshornið á Egilsstöðum á sumrin og framleiðum mjólkurvörur allt árið um kring.

Maki: Baldur Gauti Gunnarsson

Börn:  Einn bráðum fjögurra ára, Egill Ingi Baldursson. 

Hvaðan ertu? Ég er frá Borgarfirði eystra.

Hvar býrðu? Á Egilsstöðum.

Mesti áhrifavaldur í matargerð? Ég veit ekki hvort það er einhver sérstakur – en ég man í menntaskóla þegar ég bjó heima hjá þáverandi tengdamóður minni, Unni, hvað hún var góð í því að búa til veislumat úr bara því sem var til í ísskápnum hverju sinni. Ég hef reynt að tileinka mér þetta, en það hefur alls ekki alltaf tekist mjög vel. 

Hver er furðulegasti réttur sem þú hefur eldað/bakað?  Þegar ég var lítil vildi ég alltaf vera að baka svo mamma hrærði oft saman vatni og hveiti og lét mig halda að það væri eitthvað sem væri gott. Ofan á þessar blessuðu kökur stráði ég svo dassi af grófu salti.  Mamma kallaði þetta “að baka vandræði” sem ég hélt lengi vel að væri alvöru heitið á þessum hræðilegu kökum. Ég get ekki sagt að þetta hafi runnið ofan í heimilisfólkið og einn daginn fengu eiginlega allir nóg. Sama dag tilkynnti systir mín mér að hún væri hætt að leika við mig í barbie svo þetta var virkilega slæmur dagur. 

Hvað ertu oftast beðin um að elda/baka? Ég hugsa að það sé hrísgrjónagrautur – sonur minn gæti lifað á honum einum saman. 

Hver væri titillinn á kokkabókinni þinni? “101 leið til að örbylgja brauð með osti.”

Besta eldhúsráð sem þú hefur fengið? Mér dettur ekkert skemmtilegt í hug en ég get gefið ykkur það ráð að ef þið eruð ekki að setja hvítlauk í allt, byrjið þá á því núna.  

Þú ert með matarboð, hvaða þrjár manneskjur úr mannkynssögunni myndir þú bjóða og af hverju? Og hvað myndirðu elda? Vá, góð spurning. Ég held ég myndi bjóða Juliu Andrews , Billie Holiday og Billie Eilish. Gætum kannski hugað að stofnun áhugaverðs kvartetts. Ég myndi elda mitt rómaða tómatpasta með hvítlauk og heimagert naan-brauð. 

Hlustarðu á tónlist þegar þú eldar? Ef svo er hvaða og af hverju? Nei, get ekki sagt það. Allavega ekki eftir að ég eignaðist barn. 

Hvert er leiðinlegasta eldhúsverkið? Áður en við fengum uppþvottavél þá hefði ég frekar vilja skipta á 200 kúkableyjum en að vaska upp. Mikið ofboðslega er það leiðinlegt.

Horfirðu á matreiðsluþætti? Einhver í uppáhaldi? Nei, ekki beint – en ég datt stundum í að horfa á Rachel Khoo þegar hún var á RÚV, hún er svo ofboðslega sæt og talar svo fallega. Maturinn var líka fínn. 

En lestu matreiðslubækur? Mælirðu með einhverri? Ég les þær ekki sem skemmtiefni nei, en mér finnst best að komast yfir matreiðslubækur með einföldum heimilismat sem eru á allra færi. Ég fékk einmitt nýjustu bókina hennar Evu Laufeyjar í afmælisgjöf – hún virðist nokkuð aulaheld! 

Hver er þinn styrkleiki í eldhúsinu? Ég hugsa að það sé áhugi minn, og okkar beggja, á því að reyna að vera sjálfbær og auðvitað umhverfisvæn í hráefnanotkun. Við erum t.d. með hænur og nokkrar kindur svo við erum sjálfbær á egg og kjöt. Á sumrin ræktum við okkar eigið grænmeti sem endist yfirleitt langt fram á veturinn og tínum ágætt magn af lerkisveppum upp í skógi. Einnig borðum við mikið af mjólkurvörum úr eigin framleiðslu (ost, skyr og jógúrt) – og mjólkin er auðvitað glæný úr tankinum.  Best er þegar allt á disknum er úr eigin ræktun eða framleiðslu.  

En veikleiki? Ég á ferlega erfitt með að elda eitthvað sem er ekki nákvæmlega eftir uppskrift. Þetta með slumpið á ekki vel við mig. En ég er að æfa mig. 

Hver er mesta áhætta sem þú hefur tekið í matargerð? Að elda hádegismat fyrir heilan hóp af svöngum vegavinnukörlum. Hljómar ekki áhættusamt, en ég var bara mjög stressuð.

Hvað er alltaf til í ísskápnum hjá þér og af hverju?  Hvítlaukur, smjör og tómatar. Og svo er það greyið vanrækti súrinn minn, hann Gísli. 

Mesta afrek í eldhúsinu?  Öll þau skipti sem ég næ að elda hrísgrjónagraut án þess að hann brenni við. Já, og þegar ég gerði karrýsósu í fyrsta sinn, það er bara miklu erfiðara en fólk heldur.   

Hver er svo þín uppáhalds uppskrift sem þú vilt deila með lesendum? Eins og fyrr segir elska ég einfaldar en góðar uppskriftir og þess vegna verður einfalt tómatpasta fyrir valinu.

Af hverju er hún í uppáhaldi? Einföld uppskrift og fá hráefni.   

Hvernig er svo uppskriftin?  

Þú hellir bara vel af góðri olíu á pönnu. Skerð ca. 4 rif af hvítlauk niður og gyllir hann í olíunni. Næst skerðu eitt til tvö góð box af fallegum konfekttómötum í smáa bita og setur út á pönnuna og leyfir þessu öllum að malla saman þangað til þetta er orðið að góðri sósu. Eitthvað næs pasta að eigin vali er soðið og sósan sett út á.  Til að toppa þetta allt saman er fersk basilika og parmesan ostur sett út á. 


Eyrún ásamt Agli Inga, syni þeirra Baldurs. Mynd: Úr einkasafni.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar