Eldhúsyfirheyrslan: Tapaði næstum glórunni eftir grænt blandara slys

Í eldhúsyfirheyrslu vikunnar er hún Alda Björg Lárusdóttir. Matgæðingur síðustu viku skoraði á hana að taka þátt og lét hún ekki spyrja sig tvisvar. Alda er búsett á Egilstöðum ásamt manni sínum og börnum. Hún starfar með eldri borgurum í Hlymsdölum á Egilsstöðum. Hún deilir með okkur uppskrift að afar girnilegum kanilsnúðahjörtum.


Fullt nafn: Alda Björg Lárusdóttir
Aldur: 39
Starf: Starfa með eldri borgurum í Hlymsdölum á Egilsstöðum.
Maki: Unnar Erlingsson, ágætur með eindæmum!
Börn: Þrír gormar, 17 og 7 ára drengir, 5 ára stúlka.
Hvaðan ertu? Jahh.. Ég fæddist í Bolungarvík og ólst upp í Hafnarfirði. Ég kalla mig yfirleitt Vestfirðing!
Hvar býrðu? Efst í brekkunni á Egilsstöðum. Mér var tjáð að við byggjum í Snobbhill eða Beverly hills. Og að það væri vafaatriði hvort við tilheyrðum Egilsstöðum eða Reyðarfirði, svo langt værum við frá hjarta bæjarins að mati lókalsins.
Mesti áhrifavaldur í matargerð? Mamma kom mér af stað og kenndi mér allt sem þurfti, svo hún er áhrifavaldur nr. 1. Annars er það líklega Solla (Sólveig Eiríksdóttir). Fyrstu árin hló ég yfirlætislega að henni og hennar græna sulli. Nú elska ég hana og allt sem hún eldar.
Hver er furðulegasti réttur sem þú hefur eldað/bakað? Ég gæti kannski helst nefnt fagurgrænu pizzuna sem var með botni úr einungis eggjum, osti og spínati. Hún var mjög góð og mjög mjög græn!
Hvað ertu oftast beðin um að elda/baka? Líklega kanilsnúðahjörtu og lasagna.
Hver væri titillinn á kokkabókinni þinni? Brasaður borgari, grænn drykkur og allt þar á milli.
Besta eldhúsráð sem þú hefur fengið? Mamma mín gerir geggjaðan mat. Hún kenndi mér að nota bara þau krydd sem mér þætti góð lykt af hverju sinni og hentuðu skapinu.. og smakka mig svo áfram. Það virkar yfirleitt fáránlega vel!
Þú ert með matarboð, hvaða þrjár manneskjur úr mannkynssögunni myndir þú bjóða og af hverju? Og hvað myndirðu elda?  Ég myndi vilja hitta Jesú frá því að hann var hér um árið 30, móðurafa minn sem lést þegar ég var lítil og móðurömmu mína sem ég sakna hræðilega. Ég myndi bjóða upp á íslenskt lambalæri og Royal-búðing með þeyttum rjóma í eftirrétt. Ekki að það skipti miklu máli því ég myndi líklega grenja svo mikið að ég kæmi ekki bita niður, og hin þrjú fengu ekki matarfrið vegna faðmlaga og grenjs.
Hlustarðu á tónlist þegar þú eldar? Ef svo er hvaða og af hverju? Nei, mér finnst tónlist truflandi ef ég er að einbeita mér, eins og verið sé að grípa fram í fyrir mér.
Hvert er leiðinlegasta eldhúsverkið? Ætli það sé ekki bara blessuð tiltektin.
Horfirðu á matreiðsluþætti? Einhver í uppáhaldi? Nei, ég horfi bara á leiðbeiningamyndbönd ef ég sé mat eða bakstur sem mér lýst einstaklega vel á.
En lestu matreiðslubækur? Mælirðu með einhverri? Já, ég elska matreiðslubækur, þó ég sé yfirleitt léleg að fylgja uppskriftum. Ég get setið heilu kvöldstundirnar og skoðað uppskriftabækur. Undanfarin ár hefur áhuginn snúið að öllu heilsutengdu. Því langar mig að mæla með Hagkaups bókunum hennar Sollu (Grænn kostur og Heilsuréttir), svo er bókin Máttur matarins eftir Unni Guðrúnu Pálsdóttur og Þórunni Steinsdóttur mjög áhugaverð bók og stútfull af fróðleik og uppskriftum.
Hver er þinn styrkleiki í eldhúsinu? Mér reynist auðvelt að gera flest, bakstur, matur, hollt, óhollt..
En veikleiki? Ég þjáist stundum af fullkomnunaráráttu þegar kemur að matseld og bakstri og eyði því oft allt of löngum tíma í eitthvað sem ætti að taka augnablik. Jafnvel bara fyrir agnarsmá atriði sem enginn tekur eftir nema ég.
Hver er mesta áhætta sem þú hefur tekið í matargerð? Allir vita að jólin koma bara með sörubakstri. Ég gerði mjög stóra uppskrift af sykurlausum sörum fyrir ein jólin, þær voru vægast sagt vondar. En jólin komu samt.
Hvað er alltaf til í ísskápnum hjá þér og af hverju? Smjör, rjómi, púðursykur og hvítlaukur eru alltaf til í eldhúsinu mínu.
Mesta afrek í eldhúsinu? Að týna ekki glórunni þegar lokið losnaði af blandaranum, þannig að græni drykkurinn minn þeyttist upp um öll loft, lak inn um allar skúffur og smurði skápana að utan.
Topp þrír réttir sem þig langar að smakka áður en þú deyrð? Hmm.. Mér dettur ekkert í hug. Ég hef smakkað flest sem hugurinn girnist, ætli þessir þrír réttir eigi ekki bara eftir að koma til mín á réttu augnabliki.

Hver er svo þín uppáhalds uppskrift sem þú vilt deila með lesendum?
Kanilsnúðahjörtu.
Af hverju er hún í uppáhaldi? Hún gleður fólkið mitt og vini alltaf jafn mikið.. Það eru margar fallegar minningar tengdar þessum snúðum.

Hvernig er svo uppskriftin?


Innihaldsefni:
150 gr brætt smjör
5 dl volg mjólk
900 gr hveiti
100 gr sykur
1 tsk salt
1 bréf ger
Auka brætt smjör
Kanilsykur

Aðferð :
-Ég set mjólkina og smjörið í skál og bræði í örbylgjuofni á meðan ég blanda hinum hráefnunum í hrærivélaskál (ég nenni ekki að brasa með gerið í ylvolga mjólk.. Það kemur ekki að sök).
-Þegar smjörið er bráðnað í mjólkinni blanda ég öllu saman og hnoða hressilega ðþí hrærivélinni. Það gerir gæfumuninn að hnoða lengi, ég hnoða oft í allt að 10 mínútur.
-Deigið er látið hefast í 40 mínútur í skálinni á hlýjum stað (ég set alltaf heitt vatn í litla vaskinn og skálina þar yfir með viskastykki yfir).
-Passa að hafa hlýtt í eldhúsinu á meðan gerbakstur fer fram.
-Deigið er flatt út í 2 langa renninga, ca 50x20 cm hvor.
-Bræddu smjöri smurt á deigið og kanilsykri stráð þétt yfir, ekki spara kanilinn.
Hér er hægt að velja hvort
a) deiginu sé rúllað upp í venjulega snúðalengju og skorið í ca 2 cm sneiðar, eða
b) deiginu sé rúllað jafnt upp frá báðum hliðum, skorið í 2 cm sneiðar, lagt á plötu og hjarta mótað með því að klípa saman deigið í miðjunni svo það myndi spíss neðst á hjartanu.
-Snúðarnir látnir hefa sig í ca 20 mínútur.
Bakaðir við 200°c í 10-12 mínútur.
Bornir fram með glassúr og ískaldri mjólk. 

Kanilsnúðahjörtun.

Alda Björg hugsar um kanilsnúðahjörtun og reynir að gleyma græna blandaraslysinu.

Myndir eru úr einkasafni. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar