Endurvekja Leikfélag Reyðarfjarðar

Boðað hefur verið til aðalfundar í Leikfélagi Reyðarfjarðar í kvöld til að endurvekja félagið sem hefur verið í dvala undanfarin ár. Talsverður áhugi virðist fyrir að koma leikstarfsemi aftur í gang þar.

„Félagið var mjög virkt á árunum 2007-12 og gerði þá góða hluti. Það setti einkum upp sýningar í kringum Hernámsdaginn, meðal annars frumsamin verk,“ segir Stefanía Hrund Guðmundsdóttir sem ásamt Draumeyju Ósk Ómarsdóttur hefur dregið vagninn í undirbúningi aðalfundarins.

Stefanía segir þær hafa byrjað á að gera könnun í hópi Reyðfirðinga á Facebook og fengið þar jákvæð viðbrögð. Síðan hafi verið haldinn samtalsfundur sem á hafi mætt tæplega 30 manns. Í kjölfarið var ákveðið að endurvekja félagið formlega með að boða til aðalfundar.

Takmörkuð gögn hafa fundist um leikfélagið og var eitt af því sem hratt vinkonunum af stað að félagið var komið á lista Skattsins yfir félög sem ætti að slíta þar sem upplýsingar um raunverulega eigendur vantaði. Aðalfundurinn verður haldinn í Safnaðarheimilinu á Reyðarfirði klukkan 20:00 í kvöld.

Stefanía segir starfið ekki vera komið það langt að farið sé að ræða hvaða leikverk félagið geti sett upp, að öðru leyti en því að á samráðsfundinum hafi fólk verið sammála um að setja stefnuna á fjölskylduverk. Þegar búið sé að endurvekja félagið með nýrri stjórn sé hægt að sækja um inngöngu á ný í Bandalag íslenskra leikfélaga og fá þar aðgang að handritasafni. Þá fyrst sé hægt að velja verk.

Hún segir fólk með margvíslega hæfileika hafa mætt á samráðsfundinn. „Sumt var tilbúið í stjórn, margir spenntir fyrir að leika, síðan voru krakkar úr tónlistarskólanum, fólk sem vildi sjá um tæknimál og hljóð en líka konur sem gáfu sig bara út fyrir að sjá um förðun og hárgreiðslu. Við töldum okkur vera komin með flest þau hlutverk sem þarf til að setja upp leiksýningu.“

Þótt um sé að ræða Leikfélag Reyðfirðinga segir Stefanía að félagið sé öllum opið enda ekki annað virkt leikfélag í Fjarðabyggð heldur en í Neskaupstað.

Þá er óráðið hvar félagið muni sýna. Félagsheimilið Félagslundur hefur verið tekið undir leikskóla og félagsmiðstöð en á sínum tíma sýndi félagið bæði í sal Reyðarfjarðarskóla og á sjálfu Stríðsárasafninu. „Salurinn í skólanum er frábær og síðan hefur okkur líka verið boðið inn í Valhöll á Eskifirði. Við getum líka séð fyrir okkur litla sýningu utanhúss á sumrin. Við viljum ekki endilega binda okkur við einn stað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.