Enginn sá hundinn: Bjartsýnn á útgáfu bókarinnar erlendis

Norðfirðingurinn Hafsteinn Hafsteinsson sendir um þessi jól frá sér sína fyrstu bók sem ber heitið „Enginn sá hundinn“. Bókin er barnabók í bundnu máli með myndskreytingum Hafsteins. Hún er bæði ádeila á snjalltækjasamfélagið og áminning um að okkur dugir að hafa hvert annað. Fyrstu viðtökur bókarinnar lofa góðu og markaðssetning erlendis er þegar hafin.

„Hún er búin að fara á tvær bókamessur erlendis, í Frankfurt og Sádi-Arabíu. Á sýningunni í Frankfurt var eftirspurnin það mikil að það var ákveðið að þýða bókina á ensku. Það eru engir samningar frágengnir enn en forlagið hefur gríðarlega trú á útgáfuréttinum erlendis.“

Bókin segir frá hundi sem kemur upp úr jólapakka hjá fjölskyldu. Hann er spenntur fyrir nýjum heimkynnum en sárnar að fólkið veiti bökkum með gleri meiri athygli en honum. Hann bregður á ýmis ráð til að fanga athygli fjölskyldunnar en árangurslítið. Hann kynnist ketti og saman fara þeir að skoða heiminn og njóta lífsins.

„Ég fékk hugmyndina að bókinni fyrir þremur árum. Við erum alltof mikið í tækjunum okkar og það eru fleiri og fleiri sem taka eftir því.

Ég er líka sekur um þetta. Meðan ég var að teikna bókina var kötturinn minn alltaf að böggast í mér og reyna að fá athygli. Í bókinni fer hundurinn að gera öðrum greiða til að fá athygli, til dæmis að slá grasið, og það er dæmi um að þú getur misst af hlutum ef þú fylgist ekki með.

En á móti kemur sannar samband hans og kattarins að ef þú ert að skemmta þér með vini þínum þá skiptir álit annarra ekki máli. Þeir uppgötvuðu að þeir áttu hvorn annan og þurftu kannski ekki allt þetta fólk.“

Hafsteinn hefur búið á Norðfirði í tæp sex ár en sambýlismaður hans er Hákon Guðröðarson sem gjarnan er kenndur við Hótel Hildebrand. Hafsteinn var áður í listnámi við William de Kooning-akademíuna í Hollandi og eru allar myndir í bókinni eftir hann.

„Ég er hrifinn af gamaldags myndum og þrátt fyrir að myndirnar í bókinni fjalli um nútímann og snjallsímana eru þær að mestu leyti tímalausar.“

Hafsteinn á einnig söguþráðinn en Bjarki Karlsson, sem hvað þekktastur er fyrir ljóðabókina Árleysi alda, ljóðsetti bókina.

„Ég var harður á að bókin yrði að vera í bundnu máli. Mér finnst skemmtilegra að lesa bækur í bundnu máli því flæðið er annað og auðveldar manni að læra línur utan að og ný orð.“

Bókin er leiftrandi fyndin og það er annað áhersluatriði Hafsteins. „Ég er að gera grín að aðstæðunum. Mér finnst best að senda skilaboð með gríni fremur en að predika.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar