„Er með einskonar Jökuldalsblæti“

Jón Knútur Ásmundsson, verkefnastjóri hjá Austurbrú, er í yfirheyrslu vikunnar á Austurfrétt.



Jón Knútur sinnir ýmiskonar markaðsverkefnum hjá Austurbrú sem einkum tengjast markaðssetningu Austurlands sem áfangastaðar ferðamanna, en einnig kemur hann að kynningu á ýmsum verkefnum eins og Tæknidegi fjölskyldunnar sem er nú á laugardaginn.

 

Fullt nafnJón Knútur Ásmundsson.


Aldur: 41.

Starf: Verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Maki: Esther Ösp Gunnarsdóttir.

Börn: Iðunn Elísa Jónsdóttir.

Uppáhalds árstími og af hverju? Það eru einhverjir töfrar tengdir öllum árstíðum og mér líkar vel við þær allar. Kannski einna helst sumarið sem mér finnst ofmetið. Sólin má ekki skína í augnablik og þá finnst mér allt í einu að ég eigi að fara út og dytta að húsinu eða slá blettinn. Einhverskonar framkvæmdaáþján sem fylgir þeirri árstíð og hún er þrúgandi fyrir lata menn.

Duldir hæfileikar? Tja, ég veit þá ekki af þeim.

Hver er þinn helsti kostur? Ég er vel giftur.

Hver er þinn helsti ókostur? Segi stundum já þegar ég meina nei.

Besta bók sem þú hefur lesið? Hef lesið svo margar góðar bækur í gegnum tíðina og ómögulegt að nefna þá allra bestu. Sú eftirminnilegasta í seinni tíð er bókin hans Óskar Árna Óskarssonar, Skuggamyndir á ferðalagi. Les bækur yfirleitt ekki oftar en einu sinni en þá bók hef ég lesið nokkrum sinnum.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Harðfisk, íslenskt smjör og sódavatn.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Reyðarfjörður náttúrulega en svo er Kvíabólstígur í Neskaupstað krúttleg gata sem ég tengi góðar minningar við. Mér finnst reyndar Selskógur á Egilsstöðum ferlega huggulegur líka og ekki má gleyma útbænum á Eskifirði – alltof vel geymt leyndarmál. Síðan er það Jökuldalurinn, maður minn! Er með einskonar Jökuldalsblæti ef út í það er farið. Þá má ekki gleyma bensínsjoppuplaninu í Fellabæ. Meira segja það á sín móment.
Svona gæti ég haldið áfram lengi.

Vínill eða geisladiskur? Vínill um helgar, geisladiskar á virkum kvöldum, Spotify í vinnunni.

Mesta undur veraldar? Hárlos hunda.

Ef þú fengirhitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ringo Starr. Viss um að við næðum vel saman þó hann hafi kosið með Brexit. Enginn er jú fullkominn.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Ég fíla fyndið fólk. Það er hræðilegt að vera í samskiptum við fólk sem hefur ekki skopskyn.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Ég hlusta á Rás 1 á meðan ég vinn húsverkin og þannig verða þau öll bærileg.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Ég er löngu búinn að átta mig á því að heima er best. Þessi listi er ekki til í mínum huga.

Settir þú þér eitthvað markmið til að ná á þessu ári? Nei.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Fólk sem fylgir sannfæringu sinni er alltaf aðdáunarvert og ómaksins virði að herma eftir því.

Hvað bræðir þig? Dóttir mín. Daglega.

Af hverju ætti fólk að skella sér á Tæknidaginn? Vegna þess að maður er manns gaman og þetta er nördalegasta og krúttlegasta samkoma sem haldin er á Austurlandi. Hún vekur upp græskulausa gleði og hittir bæði börn og fullorðna í hjartastað. Eða eins og sagt er: Tæknidagurinn gerir lífið skemmtilegra.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar